Fimm pálma­tré sem staðið hafa í Smára­lind um ára­bil eru nú komin á sölu. Hugi Hreiðars­son fram­kvæmda­stjóri Efnis­veitunnar sem sér um söluna aug­lýsti trén til sölu í morgun og segist þegar hafa fengið mikil við­brögð.

„Þetta er í fyrsta og lík­lega eina skiptið sem við erum að selja suð­ræna stemningu,“ segir Hugi léttur í bragði í sam­tali við Frétta­blaðið. Trén eru um sex til sjö metra há og eru þrjú þeirra í upp­runa­legum lit en tvö hafa verið máluð svört. Upp­sett verð er 150 þúsund krónur án vasks en 186 þúsund krónur með vaski.

„Við vinnum fyrir fullt af fram­sæknum fyrir­tækjum sem hugsa fyrst og fremst um hag jarðarinnar, þessi góðu tré hafa sómt sér vel í Smára­lind en bíða þess nú að komast á nýja staði,“ segir Hugi.

Bíður eftir sím­tali frá Degi

„Það hafa nokkrir nú þegar merkt Reykja­víkur­borg við aug­lýsinguna hjá okkur. Við bara aug­lýsum eftir sím­tali frá Reykja­víkur­borg um að koma að skoða, þarna er lausnin komin, Dagur hlýtur að hringja,“ segir Hugi hlæjandi og vísar þar til fyrir­hugaðra fram­kvæmda í Voga­hverfi þar sem hug­myndir eru uppi um að koma fyrir tveimur pálma­trjám.

Trén eru ekki lifandi. „Og það hlýtur að stein­liggja. Það er ekkert að því þó það þurfi ekki að vökva þau, við erum fyrst og fremst að fá þessa suð­rænu stemningu sem ég held að arki­tektarnir hafi verið að leita að þegar þeir teiknuðu þetta inn á lóðina. Maður sér þetta víð er­lendis að stundum er notast við svona mannanna verk.“

Hugi segir trén líta mjög vel út. „Þetta er vel smíðað og þetta getur sómt sér vel bæði bara þar sem er hátt til lofts, á veitinga­húsum eða hjá bæjar­fé­lögum eða í í­þrótta­mið­stöðvum.“

Fréttablaðið/Skjáskot