Ef einhver elskar að skreyta heimilið sitt fyrir jólin og fara alla leið þá er það fagurkerinn og lífskúnstnerinn Þórunn Högnadóttir stílisti.

Þórunn er annáluð fyrir skreytingarnar sínar og skortir aldrei nýjar hugmyndir þegar kemur að því að fanga augað með glysi, glingri og fallegum hlutum. Töfrar jólanna eru vissulega til staðar á heimili Þórunnar.

Jólahátíðin er uppáhaldsárstíminn hennar Þórunnar og veit hún ekkert skemmtilegra en að skreyta heimilið og setja í jólabúninginn. „Ég byrja yfirleitt að skreyta í nóvember. Ég get alveg gleymt mér í öllum jólaundirbúningnum. Innblásturinn sæki ég úti um allt, bæði verslunum og á Pinterest. Hugmyndirnar koma hreinlega til mín, ég vill alls ekki kópíera aðrar og geri ávallt mínar útfærslur.“

Þórunn segist eiga ofgnótt af jólaskrauti.

Þórunni langaði að gera eitthvað alveg nýtt á jólaborðið í ár. Hún skreytti gyllta hringi með allskonar greni og slaufum í mismunandi stærðum og hengdi síðan í girni þvert yfir borðið.

Nota mikið lifandi greni

„Ég á mikið af alls konar jólaskrauti og nota það oftast ár eftir ár, en breyti um stað og rými. Í ár er ég með mikið af lifandi greni um allt hús, í vösum hér og þar. Hvít kerti finnst mér alltaf vera hátíðleg. Litaþemað mitt í ár er silfur og gull í bland við svart, mér finnst það svo fallegt saman.“

Þórunn er ávallt með lifandi jólatré. „Ég hef skipt um tegund á milli ára og í ár er það normannsþinur. Mér finnst normannsþinurinn vera einstaklega jólalegt tré og ilmurinn er svo góður.“

Þórunni finnst gaman að nota mismunandi borðbúnað og fékk sér þessar röndóttu skálar til að brjóta upp með sparistellinu. Hér notar hún glimmerstjörnur yfir skálarnar með smágreni og slaufu.FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Súpa á aðfangadag

Jólahefðirnar hafa ríkt hjá fjölskyldunni í áranna rás en síðastliðin tvö ár hefur fjölskyldan aðeins breytt til. „Til að mynda geri ég í súpuna í hádeginu á aðfangadag, sem var alltaf í forrétt, það er virkilega notalegt að eiga stund saman í hádeginu. Mamma var alltaf með frómas í eftirrétt, en núna höfum við bæði tiramisú og mini-pavlovur, svona eitthvað fyrir alla. Borðhaldið hefst ávallt kl. 18 á aðfangadag, þar sem hamborgarhryggurinn með tilheyrandi meðlæti er borinn fram og við hlustum á kirkjuklukkurnar í Bústaðakirkju hringja inn jólin, svo hátíðlegt. Við borðum síðan yfirleitt eftirréttinn í stofunni við arineld. Síðan sér yngsta dóttirin um að dreifa gjöfum á alla fjölskylduna í rólegheitum.“

Kransana um allt hús er Þórunn búin að eiga í mörg ár. Þeir fá ávallt nýtt útlit fyrir hver jól.

Þórunn gefur hér lesendum Fréttablaðsins uppskriftina af aspassúpunni sem kemur úr smiðju móður hennar, sem hún er aðeins búin að tvista til.

Aspassúpa mömmu

2 dósir aspas, safinn notaður

1 l rjómi

70 g smjör

½ dl hveiti

1 búnt ferskur aspas

1 laukur

Koníaksdreitill

Kjötkraftur eftir smekk

Paprikuduft til skrauts

Byrjið á því að búa til smjörbollu úr hveiti og smjöri, bætið við aspassafanum ásamt rjóma og krafti. Steikið lauk á pönnu upp úr smá smjöri og koníaki síðan bætt út í. Steikið aspas á pönnu í smjöri og saltið til eftir smekk. Berið fram með snittubrauði eða því brauði sem ykkur langar í.

Baðherbergið fær líka að fara í jólabúninginn, sveipað gylltu þema. Þórunn er með grenikrans á veggnum við frístandandi baðkarið og síðan bjó hún til einn krans með kamel velúr sem er svo fallegt með svörtu og setti kerti með.
Jólatréð stendur skreytt glærum steinum og blingi og er um tveir metrar á hæð. Þórunn breytir reglulega um staðsetningu á jólatrénu og í ár er það í forstofunni við eldhúsið.
Yngsta barnið á heimilinu, Leah Mist, fær að njóta þess að vera með jólatré í herberginu sínu í sínum uppáhaldslit,
Að eigin sögn segist Þórunn vera skó-, tösku- og glingursjúk og þeir sem þekki hana viti það. „Ég var lengi vel með fataherbergi, en eftir að við eignuðumst hana Leuh Mist þá breyttum við því herbergi í barnaherbergi.
Jóladressið hennar Þórunnar er pallíettuflíkur en hún elskar glimmer og pallíettur og finnst einstaklega gaman að klæða sig í þessar flíkur í desember. “