Söngvarinn Páll Óskar tjáði sig um nýja á­breiðu tón­listar­mannsins Flona á einu vin­sælasta Euro­vision­lagi Ís­lendinga og var hann vægast sagt sáttur með unga lista­manninn. Nýi búningur lagsins virðist hafa farið öfugt ofan í margan Ís­lendinginn ef marka má um­ræðu sem skapaðist um málið á Twitter.

„Mér finnst þetta ger­sam­lega geð­veik lag­lína og töff pródú­serað lag við þennan þekkta texta,“ sagði Páll Óskar á Face­book í gær þar sem hann deilir mynd­bandi af flutningi Flona. „Þessi angur­væra lag­lína þjónar nefni­lega textanum, skilur inn­tak hans og dregur fram hvað textinn er í raun sorg­legur. Súper­hittari er fæddur.“


Lagið flutti Floni sem skemmti­at­riði á annarri undan­keppni Söngva­keppninnar sem fór fram í gær­kvöldi. Þar setti hann Nínu í glæ­nýjan búning, mörgum til ama en öðrum til skemmtunar. Það að autotu­ne-græja skyldi notuð við flutninginn var eitt­hvað sem mörgum þótti galli.


Floni sá sjálfur um út­setningu lagsins á­samt þeim Arnari Inga Inga­syni og Magnúsi Jóhanni Ragnars­syni en þeir fé­lagar hafa komið að mörgum þekktustu lögum Ís­lendinga á síðustu árum. Saman vinna þeir einnig að nýrri plötu tón­listar­konunnar GDRN, sem hlaut Ís­lensku tón­listar­verð­launin fyrir fyrstu plötu sína Hvað ef.

Flóni - Nína

Flóni flutti eigin útgáfu af stórsmellinum Nína í Söngvakeppninni.

Posted by RÚV on Saturday, February 15, 2020