Framhaldskólanemar mega loks halda skólaböll á ný og ætla má að í dag myndist raðir í hraðpróf fyrir ballkvöldið mikla á fimmtudaginn.

Þá halda MR og Kvennó sín böll auk þess sem nýnemaball Tækniskólans verður haldið í samvinnu við nemendafélög fjölbrautaskólanna í Breiðholti og Ármúla.

Böllin áttu meira að segja að vera fjögur en nemendur í Borgarholtsskóla slógu sínu á frest vegna þess að sjálfur Páll Óskar, sem átti að syngja fyrir dansi, reyndist tvíbókaður og verður upptekinn við að trylla MR-ingana sem voru fyrri til að festa sér stuðboltann annálaða.