Uppboð fór fram á pakka af Bláum Opal inni á Facebook hópnum Nammitips en í gegnum tíðina hefur mikil eftirspurn verið eftir sælgætinu frá því að Nói Síríus hætti framleiðslu þess árið 2005. Að sögn uppboðshaldara var um að ræða pakka frá árinu 1974.
Uppboðinu lauk klukkan átta að kvöldi þann sautjánda júní en mikil eftirspurn var eftir pakkanum. Fyrsta boð var upp á 1.500 krónur og seldist pakkinn að lokum á sextán þúsund krónur. Einhverjir buðu hátt í 70 þúsund á einum tímapunkti en viðkomandi virðist síðan hafa hætt við.

Vandræði með aðalbragðefnið
Líkt og áður hefur komið fram var framleiðslu á namminu hætt árið 2005 en þar áður hafði verið gert hlé á framleiðslu árið 1982 í næstum tvö ár þar sem ákveðið var að minnka hlutfall aðalbragðefnisins, klóróforms, niður í 1,4 prósent. Árið 2015 var þó hætt að framleiða aðalbragðefnið.
Frá því að framleiðslu var hætt hefur fjöldi fólks kallað eftir því að Nói Síríus gefi út Bláan Opal á nýjan leik og greindi Vísir frá því árið 2016 að verið væri að vinna í því að finna réttu bragðefnin. Það reyndist þó ómögulegt þar sem hvergi var hægt að fá bragðefnið sem gaf namminu sinn sérstaka keim.

„Besta fjárfesting sem menn hafa komist í“
Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs hjá Nóa Síríus, segir að í gegnum tíðina virðast sumir hafa hamstrað Bláan Opal og því komi reglulega upp gamlir pakkar til sölu á netinu sem seljast á tugþúsundir. „Þannig að ef einhver lumar á gömlum pakka, þá virðist það verið einhver besta fjárfesting sem menn hafa komist í,“ segir Auðjón við Fréttablaðið.
„Við erum alltaf að reyna að finna lausn á þessu óskabarni þjóðarinnar. Við höfum mikið leitað að bragðefni sem nær ekki einungis sama bragði, heldur sömu tilfinningu og Blár Opal gaf. Þessi leit er þrautinni þyngri.“
Hefur Nói Siríus reynt að fá helstu bragðefnaframleiðendur heims með sér í lið til að framleiða nammið á nýjan leik en það hafi hingað til ekki gengið. Þau hafa þó ekki gefist upp og gert nokkrar tilraunir í ár, sumar hverjar sem nálgast gamla bragðinu. „En okkur dettur ekki í hug að koma með vöru sem er ekki alveg eins og gamli Blái, þá værum við bara að gera þjóðinni óleik.“