Upp­boð fór fram á pakka af Bláum Opal inni á Face­book hópnum Nammi­tips en í gegnum tíðina hefur mikil eftir­spurn verið eftir sæl­gætinu frá því að Nói Síríus hætti fram­leiðslu þess árið 2005. Að sögn upp­boðs­haldara var um að ræða pakka frá árinu 1974.

Upp­boðinu lauk klukkan átta að kvöldi þann sau­tjánda júní en mikil eftir­spurn var eftir pakkanum. Fyrsta boð var upp á 1.500 krónur og seldist pakkinn að lokum á sex­tán þúsund krónur. Ein­hverjir buðu hátt í 70 þúsund á einum tíma­punkti en viðkomandi virðist síðan hafa hætt við.

Pakkinn var til sölu í Facebook hópnum Nammitips.
Facebook/Skjáskot

Vand­ræði með aðal­bragð­efnið

Líkt og áður hefur komið fram var fram­leiðslu á namminu hætt árið 2005 en þar áður hafði verið gert hlé á fram­leiðslu árið 1982 í næstum tvö ár þar sem á­kveðið var að minnka hlut­fall aðal­bragð­efnisins, klóró­forms, niður í 1,4 prósent. Árið 2015 var þó hætt að fram­leiða aðal­bragð­efnið.

Frá því að fram­leiðslu var hætt hefur fjöldi fólks kallað eftir því að Nói Síríus gefi út Bláan Opal á nýjan leik og greindi Vísir frá því árið 2016 að verið væri að vinna í því að finna réttu bragð­efnin. Það reyndist þó ó­mögu­legt þar sem hvergi var hægt að fá bragð­efnið sem gaf namminu sinn sér­staka keim.

Tæplega tveggja ára hlé var gert á framleiðslu Blás Opals árið 1982.
Mynd/Morgunblaðið

„Besta fjár­festing sem menn hafa komist í“

Auð­jón Guð­munds­son, fram­kvæmda­stjóri markaðs- og sölu­sviðs hjá Nóa Síríus, segir að í gegnum tíðina virðast sumir hafa hamstrað Bláan Opal og því komi reglu­lega upp gamlir pakkar til sölu á netinu sem seljast á tug­þúsundir. „Þannig að ef ein­hver lumar á gömlum pakka, þá virðist það verið ein­hver besta fjár­festing sem menn hafa komist í,“ segir Auð­jón við Fréttablaðið.

„Við erum alltaf að reyna að finna lausn á þessu óska­barni þjóðarinnar. Við höfum mikið leitað að bragð­efni sem nær ekki einungis sama bragði, heldur sömu til­finningu og Blár Opal gaf. Þessi leit er þrautinni þyngri.“

Hefur Nói Siríus reynt að fá helstu bragð­efna­fram­leið­endur heims með sér í lið til að fram­leiða nammið á nýjan leik en það hafi hingað til ekki gengið. Þau hafa þó ekki gefist upp og gert nokkrar til­raunir í ár, sumar hverjar sem nálgast gamla bragðinu. „En okkur dettur ekki í hug að koma með vöru sem er ekki alveg eins og gamli Blái, þá værum við bara að gera þjóðinni ó­leik.“