Heimili Begga og Pacas er ævintýraheimur út af fyrir sig og upplifun að njóta þess sem fyrir augu ber. Beggi og Pacas eru þekktir fyrir að vera líflegir og skemmtilegir gestgjafar þar sem gleðin er ávallt í fyrirrúmi og kræsingarnar sem þeir bera fram nostalgía, bragðtegundirnar, liturinn og ilmurinn svo freistandi fyrir auga og munn.

„Við elskum að taka á móti gestum og hafa gaman og Pacas er snillingurinn í eldhúsinu. Hann er svo hugmyndaríkur að útbúa framandi rétti og fjölbreytnin í matargerðinni er allsráðandi,“ segir Beggi, sem veit ekkert skemmtilegra en að taka á móti hópum.

Þeir segjast hafa gaman af lífinu og vera þakklátir fyrir að vera til.

Gleður hjartað að sjá fólk hamingjusamt og brosandi

Báðir eru þeir Beggi og Pacas matreiðslumeistarar og ber eldhúsið þeirra þess sterk merki.

„Við elskum að elda mat og bjóða fólki að njóta með okkur. Við bjóðum fólki reglulega heim og elskum að njóta samvista við það, því það gleður okkur svo mikið að sjá fólk hamingjusamt og brosandi,“ segir Beggi og finnst fátt meira gefandi að en gleðja aðra.

Segja má að þeir Beggi og Pacas skipti hlutverkum á milli sín með einstakri natni þar sem hæfileikar þeirra njóta sín fulls. Pacas er meistarinn í eldhúsinu og elskar að dunda við eldamennskuna og töfra fram sælkerakræsingar á meðan Beggi reynir að aðstoða hann og er meira í öllu hinu. Að þeirra sögn er Beggi meiri húmoristi fyrir allan peninginn og nýtur sín vel í hlutverki gestgjafans sem slíkur.

Í veislunni góðu fengu Sigurður Ingi Bjarnason, Sjöfn Þórðar, Pacas, Beggi, Hera Björk Þórhallsdóttir og Katla Guðmundsdóttir að njóta sælkera­kræsinga og gleðin var við völd. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Suður-amerísk matargerð í uppáhaldi

Þegar Beggi og Pacas eru inntir eftir því hvort þeir eigi sína uppáhalds þjóðarétti segjast þeir vera mikið fyrir létta rétti eins og grænmeti, fisk og kjúkling.

„Suður-amerískur matur er líka í uppáhaldi enda er Pacas frá Brasilíu og áhrifavaldurinn sem kemur manni á bragðið,“ segir Beggi og brosir sínu breiðasta.

Hér deila Beggi og Pacas með lesendum uppskriftum að sælkeraréttum sem þeir buðu upp á í litríkri matarveislu í þættinum sem haldin var til heiðurs Heru Björk Þórhallsdóttur söngkonu, sem átti afmæli, henni að óvörum.

Kjúklingalundir í ostasælu

500 g kjúklingalundir

Hálfur piparostur, skorinn í bita

Hálfur pepperóníostur, skorinn í litla bita

1 camembertostur, skorinn í bita

Goudaostur, dágóður skammtur (1 poki rifinn ostur)

½ l rjómi, eða eftir smekk

1 laukur, saxaðu

1 paprika, skorin í litla bita

4 sneiðar beikon, skornar í bita

Hvítlauksolía og kókosolía eftir smekk fyrir maríneringu á lundunum.

Byrjið á að marínera kjúklingalundir í hvítlauksolíu og kókosolíu í minnst 30 mínútur. Steikið þá kjúklingalundirnar og lokið þeim. Bætið þá við lauk, papriku og beikoni á pönnuna og steikið. Það má líka steikja þetta hráefni á meðan lundirnar bíða í maríneringu, steikja síðan lundirnar sér og bæta svo við steikta hráefninu. Næst er osti bætt út í þar sem hann bráðnar fljótt og loks rjómanum saman við. Kryddið eftir smekk með kryddum sem ykkur langar að bæta við. Setjið blönduna í eldfast mót, stráið rifnum osti yfir og bakið í ofni við 200°C í um það bil 30 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn og fallegur.

Kúskús að hætti Pacasar

1 pakki kúskús

1 krukka sólþurrkaðir tómatar

½ krukka ólífur að eigin vali

1 paprika, söxuð

1 laukur, saxaður

1-2 litlir hvítlaukar, smátt saxaðir

1 krukka tikka masala-sósa, notum bara 1 matskeið af henni

Vatn eftir smekk

1-2 tsk. kanill

Hitið pönnu með kókossmjöri á meðalhita og byrjið á að steikja sólþurrkuðu tómatana, laukinn, paprikuna, hvítlaukinn og ólífur. Síðan er kanill og kúskús sett út í, ásamt soðnu vatni í því hlutfalli sem þarf fyrir kúskúsið, bætið við einni matskeið af tikka masala, kryddið með kanil og hrærið saman. Setjið svo lok yfir pönnuna og látið standa í smá stund til að bragðefnin nái að brjóta sig saman.

Geggjað baunasalat

1 poki grænar baunir, hvítar baunir og nýrnabaunir (fæst frosið í pokum í Krónunni, t.d.)

4 sneiðar beikon, skorið í bita

200 g döðlur, í bitum

½ poki spínat

Sesamolía eftir smekk

Byrjið á að steikja beikon, döðlur, spínat og baunir upp úr sesamolíu. Það má krydda með salti og pipar ef vill. Þegar baunirnar og annað hráefni er orðið mjúkt og léttsteikt er baunasalatið tilbúið. Ef þið viljið hafa réttinn vegan er í góðu lagi að sleppa beikoninu.