Þau systkinin hafa ekki stundað hlaup lengi. Magnús byrjaði að hlaupa fyrir tveimur árum og ákvað þá að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Hann tók nokkur 10 kílómetra götu- og utanvegahlaup í undirbúningi fyrir það og hefur líka gert það í sumar til að undirbúa sig fyrir hálfmaraþonið. Bryndís segist aftur á móti ekki hafa byrjað að hlaupa neitt af viti fyrr en eftir að samkomubannið var sett á fyrr á þessu ári.

„Ég hef samt einu sinni áður hlaupið hálft maraþon í þríþraut fyrir sex árum. Ég hef verið léleg í hnénu síðustu ár en það er í lagi núna,“ útskýrir hún.

Þau systkinin eru 22 ára og 27 ára. Bryndís er eldri. Þau segjast alla tíð hafa náð vel saman og hittast reglulega. „Við förum saman á skíði, út að hlaupa eða spilum með fjölskyldunni,“ segja þau. En auk þess að hlaupa saman í Reykjavíkurmaraþoninu í ár stefna þau að því að hlaupa tólf kílómetra í Þórsmörk í september.

Í ár hlaupa þau bæði til styrktar Píeta-samtakanna í minningu föður síns Valdimars Bjarnasonar sem lést síðasta haust. Píeta- samtökin sinna forvarnastarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.

Systkinin með pabba sínum á góðri stund.

„Við völdum að hlaupa fyrir Píeta-samtökin vegna þess hve mikið þau hjálpuðu okkur og allri fjölskyldunni eftir að pabbi tók eigið líf í fyrra haust. Við viljum styrkja Píeta í þeirri von að samtökin geti bjargað fólki í sjálfsvígshættu og veitt aðstandendum eins og okkur stuðning,“ segja systkinin.

Setja markið hátt

Valdimar pabbi Bryndísar og Magnúsar var góður hlaupari að sögn systkinanna. Magnús segir langtímamarkmið sitt að bæta tímann hans.

„Ég fattaði það hversu góður hlaupari hann var þegar ég byrjaði sjálfur að hlaupa,“ segir hann.

„Hann var rosalegur hlaupari. Hann hljóp maraþon á þremur tímum árið 2011. En hann var ekki búinn að hlaupa neitt síðustu ár út af hnémeiðslum,“ útskýrir Bryndís.

Magnús segist setja markið hátt í ár. „Ég ætla að reyna að ná undir einum klukkutíma og þrjátíu mínútum,“ segir hann. En með því myndi hann ná hálfu maraþoni á helmingi tímans sem pabbi hans hljóp heilt maraþon.

„Ég ætla að vera 25 mínútum á eftir Magga, segir Bryndís. „Ég ætla að reyna að ná undir einum klukkutíma og 55 mínútum.“

Magnús segir að pabbi þeirra hafi óbeint hvatt þau til að hlaupa með því að vera fyrirmynd þeirra í hlaupunum.

„Hann var alltaf mjög áhugasamur um allt sem við vorum að gera. Ég veit að hann hefði verið mjög spenntur fyrir þessum hlaupum hjá okkur,“ bætir Bryndís við.

Systkinin segjast ekki vera að stefna að neinni ákveðinni upphæð í söfnuninni en vonast bara til að fá eins mikið og hægt er. Hægt er að finna þau og styrkja þau og þar með Píeta-samtökin inni á hlaupastyrkur.is.