Bubbi Morthens er ekki búinn að taka ákvörðun um hvort hann haldi Þorláksmessutónleika sína í Hörpu, eins og áætlað er, eða hvort þeir verði einungis í streymi líkt og í fyrra.
Nýjar samkomutakmarkanir taka gildi á miðnætti en samkvæmt þeim mega einungis 50 manns koma saman en svigrúm er gefið til að halda 200 manna viðburði með hraðprófum.
„Ég verð að viðurkenna að ég er svo busy að reyna að klára það sem ég er að gera núna á Akureyri að ég bara er ekkert að pæla í því. Það er bara fólk sem er að vinna með sér sem er að pæla í hinu,“ segir Bubbi sem var staddur í hljóðprufu í Hofi á Akureyri að undirbúa tónleika kvöldsins þegar blaðamaður hringdi í hann.
„Ég kem í bæinn klukkan hálf 9 á morgun og þá förum við í að skoða stöðuna.“
Að sögn Bubba er ekki búið að aflýsa tónleikunum í Eldborg og ætlar hann sér að bjóða upp á streymi frá þeim hvort sem hægt verður að taka á móti gestum í eigin persónu eða ekki.
„Ég er með allan þann útbúnað, útsendingarbílinn og allt það gengi sem vinnur við streymið. Það er allt klárt. Þó svo að ég yrði að aflýsa Hörpu þá myndi streymið alltaf verða,“ segir hann.
þegar maður er í miðjum faraldri að þá lagar það ekkert stöðuna hjá mér að bölva og ragna og hamast eins og naut í flagi
Lagar ekkert stöðuna að bölva og ragna
Bubbi er þó síður en svo stressaður yfir sóttvarnaraðgerðum ríkisstjórnarinnar og ætlar ekki að svekkja sig á stöðunni, hvernig sem hún fer.
„Það er eitt að hafa skoðanir á hinu og þessu. En svo líka bara verður maður að gera sér grein fyrir því að þegar maður er í miðjum faraldri að þá lagar það ekkert stöðuna hjá mér að bölva og ragna og hamast eins og naut í flagi“ segir Bubbi og bætir við að hann ætli að bjóða Akureyringum upp á tryllta tónleika í Hofi í kvöld.
Þannig þú ert bara brattur?
„Já, ég er brattur. Ég er alls ekki búinn að gefast upp og ég trúi því alveg þangað til að eitthvað annað kemur í ljós að ég muni einhvern veginn halda þessa tónleika. Hvernig sem ég fer að því og allt það.“
Þorláksmessutónleikarnir hafa verið fastur liður hjá Bubba í 36 ár og er núna um tónleikaröð að ræða en í ár bauð hann upp á tónleika í Hafnarfirði, Akranesi, Reykjavík og Akureyri þar sem hann heldur tónleika í Hofi í kvöld.
„Þeir eru að fá alveg geggjaða tónleika! Við eigum bara þennan dag og það eru bara þessir tónleikar. Morgundagurinn er ekki kominn, hann er ekki til og gærdagurinn hann er farinn, þannig það er bara núna og ég er hrikalega peppaður fyrir þessa tónleika,“ segir Bubbi að lokum.