Þegar þrír dagar eru eftir af hópfjármögnun á eftirvinnslu stuttmyndarinnar Drink My Life á Karolinafund.‌com vantar leikstjórann og handritshöfundinn Marzibil Snæfríðar Sæmundardóttur tæplega helminginn af 4.000 evra takmarkinu sem þarf til þess að fullklára myndina.

„Þetta er saga sem ég byrjaði að skrifa fyrir níu árum og hef heimsótt af og til síðan,“ segir Marzibil sem var á annarri önn á leikstjórnar- og handritabraut í Kvikmyndaskóla Íslands þegar hugmyndin kviknaði.

Marzibil áttaði sig fljótt á því að myndin væri of umfangsmikil og kostnaðarsöm til þess að geta orðið útskriftarverkefni hennar en hún fékk sig þó ekki til að gefa sögu alkóhólistans hans Steina upp á bátinn.

Dýr stuttmynd

„Eftir útskrift heimsótti ég handritið reglulega en varð ekki sátt fyrr en 2018 og kostnaðaráætlun var upp á fjórtán milljónir, enda mikið að gerast í myndinni,“ segir Marzibil sem segir tökurnar sem fóru fram fyrstu vikuna í september í fyrra hafa gengið vonum framar.

„En við gerðum alveg ráð fyrir að þurfa að fara í þessa söfnun vegna þess að þetta er rosalega bissí mynd og miðað við stuttmynd þá er hún dýr og þess vegna sárvantar fjármagn til að klára eftirvinnslu, kynningu, dreifingu og til þess að senda myndina á hátíðir.“

Númer þrjú í röðinni

Marzibil lýsir Drink My Life sem svartri dramakómedíu um óvirkan alkóhólista sem svo skemmtilega vill til að áður en kynni hennar og aðalleikarans, Ársæls Sigurlaugar Níelssonar, hófust á Tinder og enduðu í hjónabandi hafði Marzibil auga á Ársæli í svipað hlutverk alkóhólista og hann fer með í Drink My Life.

Þegar Marzibil sá að handrit hennar að Drink My Life væri of stór biti til að kyngja í kvikmyndanáminu skrifaði hún annað handrit. „Ég gerði handrit sem ég treysti mér til að gera og í rauninni er innblásturinn að sögupersónunni þar sá sami. Þá höfðum við ekki hist en ég var að skoða þrjá leikara og hann var einn af þeim. En leikari númer tvö sagði já þannig að ég talaði aldrei við Ársæl þótt ég væri alveg búin að sjá hann sem trúverðugan leikara í þennan karakter áður en við kynnumst.

Hann tengdi vel við aðalpersónuna,“ segir Marzibil hlæjandi enda víst ekki í kot vísað hjá aðalleikaranum, meðframleiðandandum og eiginmanninum þegar áfengi er annars vegar. „Hann segir það alveg sjálfur að hann hafi tengt fljótt við þetta handrit.“

Fyndinn bjórsögumaður

Marzibil bætir við að Ársæll hafi verið í Bjórskólanum á sínum tíma og þar fyrir utan hefur hann smakkað aðeins á áfengisvandanum. „Hann er vanur því að taka á móti hópum útlendinga og vinnustaðahópum og spjalla um bjórinn, bjórsmökkun, sögu bjórsins og svo bara eiginlega áfengissögu Íslands sem er náttúrlega alveg óborganlega fyndin ef maður fer út í það.“

Þeir sem styðja framleiðsluna rausnarlega á Karolina Fund fá ekki aðeins tvo boðsmiða á sérstaka forsýningu og nafn sitt á þakkarlistann í lok myndarinnar þar sem 200 evrur eða meira fela einnig í sér heimsókn og bjórfræðslu frá aðalleikaranum.

„Við erum innilega þakklát fyrir allan stuðning,“ segir Marzibil en söfnuninni á Karolinafund.comlýkur um mánaðamótin.

Steini er óvirkur alkóhólisti sem vanrækir sjálfan sig tilfinningalega og andlega og þegar örlögin grípa inn í fer hann að stíga varasaman dans.