Freyja Eilíf hefur starfað sem myndlistarmaður frá árinu 2010. Hún segir að í rauninni hafi það aldrei verið ætlun sín að feta þessa braut í lífinu en sköpunarkrafturinn bar aðrar hugmyndir um framtíðina ofurliði, eins og hún orðar það. „Þessi lífsstíll hentar orkunni minni vel, líka hugsanamynstri ásamt sköpunarþörf, ég leyfi mér að halda að þetta hafa verið fyrirfram ákveðin örlög,“ segir hún.

Þegar Freyja Eilíf er beðin um að lýsa verkum sínum svarar hún: „Stökum verkum mætti lýsa sem púsluspilum úr sameiginlegu landslagi sem ég sæki innblástur í, landslag sem er ímyndað, bland af raunheimum, draumheimum, tölvuheimum. Ég hef unnið verk í mjög fjölbreytta miðla, málverk, skúlptúra, innsetningar, hljóð, myndbönd, gjörninga, uppákomur, bækur og svo framvegis.“

Freyja Eilíf hefur opnað 22 einkasýningar frá árinu 2010 og tekið þátt í 39 samsýningum. Sumar í smáum galleríum en aðrar í stórum. Samkvæmt heimasíðu hennar hefur hún verið virk í sýningarhaldi víða um Ísland en einnig í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Eistlandi. Freyja lokaði Ekkisens árið 2019 og opnaði Skynlistasafnið.

Hún segir margt hafa breyst í hennar fagi á tímum COVID. „Já, þetta skaut mér af þeim lestarteinum sem ég var á fleygiferð á – ef svo má segja. Viðbrögð mín voru að fara mjög djúpt inn á við, bæði andlega sem og í eigin listsköpun. Ég hef verið að rannsaka feril minn að miklu leyti út frá hagkvæmu sjónarmiði, skoða hverju ég þarf að breyta til þess að standa betur fjárhagslega og vera viðbúin því óvænta. Fram til þessa hef ég fjárfest mikið í mínu eigin starfi og unnið sjálfboðavinnu fyrir aðra með rekstri á eigin galleríi og stýringu á samsýningum, sem og skapað listaverk sem eru ekki endilega söluvæn. Ég var mjög óviðbúin svona skelli og ég ætla að hugsa betur um öryggisnetið hér eftir. Á þessu ári fór ég til dæmis í slagtog með listamönnum með rekstur á sölurými fyrir okkar eigin myndlistarverk á Skólavörðustíg sem heitir Myrkraverk,“ segir hún og bætir við að myndlistarmenn séu fjölbreyttur hópur og flestir hafi þurft að taka skell fjárhagslega, misst launuð vinnuverkefni og sýningartækifæri. Þessi hópur hefur ekki átt inni fullar atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. „Einhverjir hafa selt meira en nokkru sinni áður, en það er mjög fámennur hópur miðað við heildina.“

Margir myndlistarmenn hafa reynt að selja verkin sín í gegnum netið og Freyja Eilíf gerði það tímabundið á heimasíðu sinni, freyjaeilif.com.

Þegar hún er spurð um opinbera styrki, svarar hún: „Það var deilt út sérstökum styrkjum í fyrrasumar og ég var ein af þeim lánsömu sem hlutu slíkan styrk. Hann er að sjálfsögðu búinn núna. Það mætti endurtaka leikinn, því ekki hefur atvinnulandslagið batnað og eflaust farið að syrta í álinn og þyngjast róðurinn hjá ansi mörgum.“

Freyja Eilíf segist hafa verið í fámennri en góðmennri vinafléttu listamanna sem reglulega senda hver öðrum kærleiksríka áminningu í gegnum netið. „Það hefur stundum bjargað lífinu mínu á þeim degi. Eitthvað á þessa leið í grunninn: „Ég elska þig / Ég kann að meta þig, það sem þú gerir og allt sem þú hefur gefið og munt gefa af þér / Ég er þakklát/ur fyrir vináttu okkar / Ég hef trú á þér.“ Ég sé hins vegar fyrir mér farsælar opnanir á sýningum sem ég opna á þessu ári, ný kynni við áhugasama kaupendur á verkum, boð um að sýna í stærri sýningarsölum á næsta ári, vel launað starf og ný atvinnutækifæri, líkamlega og andlega heilsurækt í hámarki og svo sé ég mig fyrir mér komast í gegnum þessa dyragætt sem listamaður á miðjum ferli stendur í og á meðan læri ég líka að standa á höndum.“