„Við fórum reyndar ekki gagngert vestur um haf til að gera góð kaup á Black Friday heldur erum við óvænt tveimur vikum seinna á ferð en ráðgert var, því ein úr genginu fékk Covid. Því erum við nú lentar í miðri Black Friday-vikunni vestra og sjálfur Black Friday er handan við hornið með öllum sínum óviðjafnanlegu tilboðum,“ segir Guðrún Hauksdóttir, tölvunarfræðingur hjá fjárfestingarbankanum Goldman Sachs í Lundúnum.

Guðrún er stödd í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC, ásamt móður sinni, systur og vinkonu, í heimsókn hjá kærri æskuvinkonu þeirra, Agnesi Jóhannesdóttur, sem stundar doktorsnám í tölvunarfræði við Háskólann í Maryland.

„Þetta er svolítið einsleitt hjá okkur stelpunum,“ segir Guðrún og hlær. „Við höfum verið vinkonur síðan við vorum pínulitlar í Snælandsskóla og erum nú allar tölvunarfræðingar, því Elín Rós systir var að klára meistaranám í tölvunarfræði frá Cambridge-háskóla og er nú að leita sér vinnu í Lundúnum“, segir Guðrún sem býr þar í Dulwich-hverfinu.

Búnar að afgreiða jólagjafirnar

Heima hjá Agnesi í DC er ekki þverfótað fyrir pökkum, pinklum og pokum úr innkaupaferðum vikunnar.

„Jú, fólk er farið að hafa áhyggjur af töskuplássi í hópnum og búið að versla mun meira en nauðsynlegt er. Það stefnir klárlega í yfirvigt því við erum á góðri leið með að afgreiða jólagjafirnar. Það er líka voða gott upp á það að koma heim í aðventuna og geta notið töfra hennar stresslaust og tilbúin í jólin,“ segir Guðrún kát.

Hún segir Washington DC yndislega borg heim að sækja, en sjálf bjó hún þar fyrir sjö árum.

„DC er skemmtileg verslunarborg. Aðalverslunargatan er M Street, afar kósí og snyrtileg með flottar verslanir af öllu tagi. Þá eru kringlurnar æðislegar. Þær standa reyndar aðeins fyrir utan miðborgina en auðvelt að taka þangað lest ef maður vill leggja smá á sig. Allar borgir í Bandaríkjunum eru ólíkar með sinn sjarma og sérkenni, en hér ríkir ekki sama brjálæðið og í New York þar sem ég þekki líka vel til. Ég myndi því alltaf velja frekar að fara hingað í verslunarferð, því Washington hefur upp á svo margt fleira að bjóða. Hér er ekki bara rólegt og notalegt andrúmsloft heldur líka lægri byggingar og minni traffík, mikil menning og saga, spennandi söfn, Hvíta húsið og forsetinn á næsta leiti, sem er skemmtilegt, og allt svo hreint og snyrtilegt.“

Hér má sjá Barack Obama, fyrrum forseta Bandaríkjanna, í bókabúð með dætrum sínum á svokölluðum Small Business Saturday sem er hvatning kaupmanna í Washington til að versla í minni sniðum og mótvægi við Black Friday og Cyber Monday. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Fólk varast að snertast

Guðrún og föruneyti hennar í Washington hafa gert reyfarakaup á tilboðum Black Friday.

„Við erum til dæmis búnar að fara í Banana Republic, Nike, Under Armour og Express þar sem eru æðislegir jólakjólar. Við fórum líka í Ralph Lauren og gerðum þar bestu kaupin, en það var lán í óláni hjá versluninni. Ég var komin á kassann með Ralph Lauren-stuttermaboli sem áttu að vera á 25 prósenta afslætti en vegna villu í afgreiðslukassanum datt ég inn á 75 prósenta afslátt. Afgreiðslumaðurinn var í basli þar sem verðið kom ekki rétt inn, því kassinn vildi fyrst gefa 50 prósenta afslátt og í ofanálag umrædd 25 prósent, en úr því svona háttaði var ekki annað í stöðunni en að selja mér bolina með þessum mikla afslætti. Við keyptum því boli sem áttu að kosta 68 dollara á 18 dali, sem eru án efa langbestu Black Friday-kaupin til þessa,“ segir Guðrún sátt og hress með búðarápið.

Stemningin sé líka afslappaðri en þær reiknuðu með í þessari mestu verslunarviku ársins vestra.

„Í sjónvarpinu hefur maður séð fólk hlaupa og ryðjast inn í búðir á Black Friday, en við höfum ekki orðið varar við neitt slíkt enn. Við höfum þó lent í löngum röðum snemma morguns og allt að hálftíma langri bið á kassa. Hvort sem það skrifast svo á Covid eða annað er enginn æsingur í fólki né troðningur. Allir virðast forðast að snertast og það er örugglega enginn að fara að olnboga mann núna,“ segir Guðrún og skellir upp úr.

„Hér ríkir bara skemmtilegt jólastemning, gleði og tilhlökkun og allir voða næs. Spurning hvernig sjálfur svarti föstudagurinn verður, en kannski tökum við því rólegar þá. Við erum ekki alveg til í mestu geðveikina sem maður hefur séð á netinu og erum líka orðnar frekar ánægðar með það sem við höfum keypt nú þegar.“

Washington DC er komin í glæsilegan jólabúning. Hér eru þær á búðarrölti í bandaríska höfuðstaðnum: Laufey, Elín Rós, Guðrún og Agnes. MYND/AÐSEND

Félagsskapurinn dýrmætastur

Gengið hennar Guðrúnar hefur áður farið saman í borgar- og verslunarferðir.

„Eftir þessa búbót verður þetta árlegt,“ segir hún í glensi. „Það er auðvitað skemmtilegur bónus að hafa lent hér úti í þessari viku og redda bæði flottum jólafötum og jólagjöfum á þessum stóru afsláttum. Hvarvetna eru góðir dílar. Á Black Friday ná þeir svo hæstu hæðum og fara upp í 60 til 70 prósent. Allt að 600 dollara afsláttur gefinn af tölvum og símum, og þótt Apple gefi ekki mikinn afslátt af sínum vinsælustu vörum fylgir hverri seldri tölvu gjafakort upp á 200 dali, sem þá er hægt að nota aukalega eða gefa áfram.“

Guðrún segir Black Friday jafnframt vera í vexti á Bretlandseyjum.

„Í vikunni hefur rignt yfir mig tölvupóstum með Black Friday-tilboðum frá Selfridges, merkjaverslunum og stóru kringlunum þar í landi, en ef maður fer ofan í saumana á því að versla í Bandaríkjunum eða heima á Englandi þá er breska gengið hærra en dollarinn þessa dagana og því getum við gert enn glæsilegri kostakaup hér í Washington en ella,“ segir Guðrún um budduvæna ferð sem svo óvænt varð.

„Við erum sérstaklega ánægðar með bandaríska verslunarhætti. Hér er ekkert mál að skila og allar búðir endurgreiða strax inn á kortið. Engar innleggsnótur eða krafa um að skipta í annað. Fólk er kurteist og vingjarnlegt á manninn, og þjónustan stimamjúk. Þá eru Bandaríkjamenn hægari en Íslendingar sem eru alltaf á sprettinum og tempóið því afslappaðra. Það er sum sé meira stress í Bónus en á Black Friday hér í Bandaríkjunum,“ segir Guðrún og hlær hin hressasta.

„Við erum allar yfir okkur ánægðar með góð kaup og félagsskapurinn er auðvitað skemmtilegur og dýrmætur.“