Í dag kom út ný plata, Welcome 2 America, eftir poppgoðsögnina Prince sem lést árið 2016. Á plötunni má finna tólf áður óútgefin lög hans sem tekin voru upp árið 2010.

Platan hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda en þar fer Prince yfir ýmislegt sem honum finnst ábótavant í bandarísku samfélagi og tekur meðal annars á kynþáttafordómum, falsupplýsingum, trúarbrögðum og kapítalisma.

Welcome 2 America var tekin upp í aðdraganda Welcome 2 tónleikaraðarinnar en var aldrei gefin út. Það kann að tengjast frægri yfirlýsingu Prince um að „internetinu væri lokið.“ Þar sagði Prince í samtali við The Mirror að hann sæi ekki ástæðu til þess að gefa tónlistarveitum á borð við iTunes nýju tónlistina sína þar sem hann fengi ekki greitt fyrirfram. „Internetið er eins og MTV. Á einum tíma var MTV töff, en skyndilega varð það úrelt,“ sagði Prince í viðtalinu.