Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir

Jón Kalman Stefáns­son

Út­gefandi: Bene­dikt

Fjöldi síðna: 92

Nýjasta bók Jóns Kalmans Stefáns­sonar heitir Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir. Það eru ekki öll skáld sem kæmust upp með að gefa út bók með jafn dá­sam­lega ljóð­rænum og dramatískum titli, en Jón Kalman er auð­vitað nokkuð sér á báti þegar kemur að því að fjalla um ólgu­sjó mann­legrar til­veru.

Bókin er fyrsta ljóða­bók Jóns Kalmans í 28 ár, sem út af fyrir sig eru tíðindi, og mætti segja að með henni sé skáldið komið aftur á heima­slóðir þar sem það hóf ferilinn með ljóða­þrí­leik sem kom upp­runa­lega út á árunum 1988-1993 og var endur­út­gefinn í fyrra í einni bók. Þessar fyrstu bækur voru nokkuð góðar en mis­jafnar, en Jón Kalman hefur sjálfur sagst hafa verið svo ó­á­nægður með þær á sínum tíma að hann henti restinni af upp­laginu í Sorpu.

Yrkis­efnin í Djöflarnir taka á sig náðir eru klassískur Kalman; dauðinn, ástin, skáld­skapurinn og þessi harm­ræni, yfir­þyrmandi óður til lífsins sem virðist ein­kenna allt höfundar­verk hans. Fá skáld geta leikið sér jafn fim­lega að mörkum harm­leiks og meló­dramatíkur eins og Jón Kalman. Þetta sést vel á titli bókarinnar og kafla­heitunum sem eru á­líka þrungnir af ljóð­rænu; Þú veist lík­lega að heimurinn er alls­konar; … og þá ertu hér; Það hefur svo margt verið sagt, svo margt skrifað, um það að lifa og Ljós sem klýfur myrkrið. Það eru fá nú­lifandi skáld sem geta ort af jafn­mikilli ein­lægni um til­finninga­líf mann­eskjunnar án þess að detta í klisjur eða kald­hæðni. En ein­hvern veginn tekst honum þetta alltaf jafn vel.

Svo gott sem það eina sem má finna að bókinni er það að kápu­hönnunin er nokkuð dauf­leg.
Kápa/Benedikt

Haust­rökkur og náttúru­myndir

Bókin er upp­full af haust­rökkri og greini­legt að skáldið er að gera upp bæði ævina og að vissu leyti ferilinn. Hér er ort um látna ást­vini, gamlar glæður, tímann, vatnið og gildi skáld­skaparins. Líkinga­málið er gjarnan sótt til náttúru­aflanna og jafn­vel himin­tunglanna. Þannig verður bros ást­konu eins og hala­stjarna, til­finningar eins og fjöll og dauðinn um­breytir fólki í ljós.

Eitt hjart­næmasta ljóð bókarinnar fjallar um tík ljóð­mælanda. Hundar eru ekki ó­séðir gestir í kveð­skap, Hall­grímur Helga­son skrifaði til að mynda heila ljóða­bók upp úr göngu­túrum með tíkinni Lukku. En ég tel ó­hætt að segja að sex blað­síðna lof­gjörð þar sem tíu ára gamalli tík er líkt við „ljós sem klýfur myrkrið“ sé ein mesta upp­hefð sem besti vinur mannsins hefur hlotið á síðum ís­lenskra bók­mennta.

„Tíkin mín er rúm­lega tíu ára, ég fimm­tíu og eitt­hvað, samt erum við jafn­gömul – þannig er stærð­fræði tímans.“

Það sem gerir bókina svo vel heppnaða er næmi skáldsins fyrir mikil­vægi hins hvers­dags­lega í stóra sam­henginu. Dýnamíkin á milli þess stóra og þess smáa er í full­komnu jafn­vægi. Skáldið tekur sér­tæk at­vik úr dag­legu lífi og um­breytir þeim í al­gildan sann­leika. Iðnaðar­menn að leggja gang­stéttar­hellur vekja vanga­veltur um tví­þætt eðli guðs, börn að bíða eftir grænu gang­brautar­ljósi verða mynd­líking fyrir eðli tímans.

Ljóð fyrir lífið

Það er þó ekki þar með sagt að bókin sé full­komin, enda er sannur skáld­skapur það sjaldnast. Kápu­hönnunin er til að mynda nokkuð dauf­leg, nánast sú sama og á endur­út­gáfunni frá því í fyrra nema að í staðinn fyrir svartan er hún leiðin­lega grá­brún á lit. Undir­ritaður hefði alveg verið til í að sjá út­gefanda splæsa í að­eins líf­legri kápu sem hefði sæmt inni­haldinu betur, enda er þar um mikil tíðindi að ræða.

Nokkuð er um endur­tekningar á milli ljóða, sumar mynd­líkingar á borð við fjöllin hið innra eru endur­nýttar og ef­laust hefði verið hægt að slípa ein­hver hinna mælskari ljóða til, þótt ekkert sé endi­lega víst að slíkt hefði bætt bókina. Það er nefni­lega stór partur af galdrinum hversu á­ríðandi og ást­ríðu­fullur tónn hennar er.

„Því meir sem við lifum, ég meina, af meiri hita, inni­leika, tign, af ást, þolin­mæði, þeim mun dýpri söknuð, sárari harm skiljum við eftir okkur.“

Ljóð­mælandi er svo inn­blásinn að það er nánast eins og lífið sjálft liggi undir hverri einustu setningu. Og auð­vitað er það svo því eins og segir í síðasta ljóði bókarinnar eru „ljóðin tíðindi lífsins“. Jafn af­dráttar­laus yfir­lýsing um gildi skáld­skapar á tímum þegar sí­fellt fleiri fréttir eru fluttar af minnkandi bók­lestri ætti að vera öllum ljóða­unn­endum fagnaðar­efni.

Niður­staða: Meistari prósans snýr aftur á heima­völl ljóðsins. Mögnuð bók sem fjallar um hið stóra í hinu smáa og hið smáa í hinu stóra.