„Við byrjum hjá Hakinu klukkan átta og göngum niður að kirkjunni,“ segir Óttar Guðmundsson geðlæknir um Þingvallagönguna sem hann leiðir á fimmtudagskvöld á meðan hann ræðir meðal annars tengingar Snorra Sturlusonar við þingstaðinn forna.

„Efnið er Snorri Sturluson, ævi hans og hvernig hann tengist Þingvöllum. Það eru nokkrar sögur úr Sturlungu þar sem Snorri er á Þingvöllum og lendir þar í ýmsum ævintýrum og ég segi frá því,“ segir Óttar sem mun að einhverju leyti styðjast við bók sína Sturlunga geðlæknisins. Ekki síst við upphaf göngunnar þar sem hann rýnir í persónuleika skáldsins.

„Við Hakið mun ég tala um og geðgreina Snorra og ræða hvaða greiningar henti honum og hans fjölskyldu best. Ég fer ansi mikið í fjölskyldumálin og afdrif barnanna hans, eiginkvenna og ástkvenna. Þannig að þetta fer svona um víðan völl,“ segir Óttar sem gerir ráð fyrir að gangan taki um það bil eina og hálfa klukkustund.

Frá Hakinu er stefnan tekin niður Almannagjá og að Lögbergi þar sem Óttar fer yfir tengingar Snorra við Þingvelli. „Og við kirkjuna ræði ég um hörmuleg endalok skáldsins. Þetta er nú náfrændi minn svo mér er málið skylt.“

Sturlunguþráhyggjan

Sturlungar hafa lengi verið Óttari ofarlega í huga og koma meðal annars ítrekað við sögu í Bakþönkum hans í Fréttablaðinu. Svo mjög reyndar að spyrja má hvort Sturlunga sé orðin að einhvers konar þráhyggju hjá honum.

„Þetta er náttúrlega orðið að ákveðinni þráhyggju en maður verður náttúrlega að halda frændum sínum á lofti,“ segir Óttar og bendir á að sá siður sé mjög til heilla.

Óttar, Guðrún Eggertsdóttir, barnabarn Jónasar frá Hriflu, og Guðni Ágústsson á Þingvöllum þar sem fögrum orðum var farið um Jónas. Mynd/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend

„Þetta er fyrst og fremst um Snorra Sturluson og Snorra og Alþingi og síðan rek ég svona sögu Snorra og enda síðan með þessi hörmulega andláti Snorra þegar Noregskonungur lætur drepa hann 1241,“ segir Óttar sem ætlar að nota tækifærið til þess að ítreka kröfu sína um að drápið á Snorra verði gert upp við Norðmenn.

Opinberar hefndaraðgerðir

„Ég mun viðra þessa kröfu mína að Íslendingar slíti öllu stjórnmálasambandi við Noreg þangað til að Norðmenn hafi opinberlega beðist afsökunar á þessum gjörningi. Krafan er að segja upp öllu stjórnmálasambandi við Noreg, reka sendiherrann heim og skila aftur forljótri styttu af Snorra sem Norðmenn gáfu Íslendingum í háðungarskyni og stendur í Reykholti.

Ég er búinn að halda þessu á lofti nokkuð lengi en það hefur enginn hlustað á þetta. Það hefur ekki verið neinn hljómgrunnur fyrir því að slíta öllu stjórnmálasambandi og öllum samskiptum við Noreg þangað til þeir biðjast opinberlega afsökunar á morðinu á Snorra Sturlusyni.“

Skemmtilegar göngur

Þingvallagöngurnar eru farnar reglulega á fimmtudagskvöldum og segja má að fyrir þremur vikum hafi Óttar og Guðni Ágústsson gefið ákveðið fordæmi fyrir því að hlutur þekktra einstaklinga sé réttur í leiðinni þegar Jónas frá Hriflu fékk uppreist æru í meðförum þeirra.

„Við Guðni Ágústsson vorum þarna fyrir þremur vikum og vorum að tala um Jónas frá Hriflu og fórum um hann mjög fögrum orðum, sem er dálítið merkilegt,“ segir Óttar og bætir við að Þingvallagöngurnar séu almennt mjög skemmtilegar en þar nálgist þeir sem leiði gönguna viðfangsefnið út frá sjálfum sér og sínum áhugamálum.

Óttari Guðmundssyni er svo ljúft og skylt að hygla Sturlungunum frændum sínum að það stappar nærri þráhyggju. Hann mun nota Þingvallagöngu fimmtudagskvöldsins til þess að krefjast rættlætis fyrir Snorra Sturluson gagnvart Norðmönnum. Fréttablaðið/Ernir

„Þetta var mjög vel sótt hjá okkur Guðna og núna verða með mér í för tvær söngkonur. Signý Sæmundsdóttir og Jóhanna Þórhallsdóttir, konan mín, og þær munu stjórna fjöldasöng. Þannig að þetta verður mjög þjóðlegt og allt í anda Snorra Sturlusonar.“

Engin veðurgeðlægð

Þegar talið berst að veðrinu, sem hefur einna helst legið nokkuð þungt á fólki sunnanlands, er Óttar pollrólegur og bjartsýnn. „Veður er bara veður. Ég heiti á Þorlák helga að verðrið verði gott. Það þykir mjög gott að heita á hann því hann lastaði aldrei veðrið,“ segir geðlæknirinn sem hefur ekki þurft að hjálpa fólki í veðurgeðlægð það sem af er sumri.

„Ekki ennþá en það getur verið að það komi að því,“ segir Óttar og hlær. Þetta tilheyrir bara þessu íslenska sumri. Það er mismunandi og ég læt þetta lítið á mig fá. Það hlýtur nú að lagast og það hlýtur að fara að birta til. Við treystum því að Þorlákur helgi breyti veðrinu.“