Bandarísk hjón frá Mississippi-fylki hafa vakið athygli vegna rúmlega sextíu ára aldursmunar sín á milli. Eiginkonan, Miracle Pogue, er 24 ára gömul og eiginmaður hennar Charles er 85 ára.

Þau kynntust árið 2019 og urðu vinir. Sambandið varð síðan að ástarsambandi og árið 2020 trúlofuðust þau og í síðasta sumar gengu þau í það heilaga. New York Post fjallar um málið.

„Ég pældi ekki einu sinni í því hvað hann væri gamall. Mig langaði bara að sjá í hvaða átt samband okkar færi. Mér er sama hvort hann sé hundrað eða 55 ára. Ég elska hann eins og hann er,“ segir Miracle, sem hélt að Charles væri á bilinu sextíu til sjötíu ára gamall.

Hún segir að móðir sín og afi sinn, sem er yngri en eiginmaðurinn, hafi stutt sambandið. Hins vegar hafi faðir hennar verið mótfallinn því. „Það tók langan tíma að sannfæra hann.“

Þó segir hún að þegar tengdafaðirinn og tengdasonurinn hafi hist hafi þeim komið vel saman.

Hjónin stefna að því að stækka fjölskylduna. Miracle segist vilja tvö börn með Charles og eru þau að skoða sína möguleika.

„Ég veit að líklegast mun ég verða til staðar lengur en hann, svo ég reyni að lifa og hafa gaman, upplifa eins mikið og ég get með honum,“ segir Miracle.