Fólk

Ótrúlega heillandi og skemmtileg íþrótt

Undanfarin ár hefur Andri Þór Arinbjörnsson stundað kajakíþróttina af miklu kappi. Síðasta sumar reri hann frá Þórsmörk til Vestmannaeyja með nokkrum félögum sínum þar sem hann lenti í ýmsum ævintýrum.

„Mér þótti sportið svo skemmtilegt að ég hætti að hugsa um veiðar sem eitthvert markmið en ég var búinn að róa í fjögur ár áður en ég prófaði fyrst að veiða á kajak,“ segir Andri Þór Arinbjörnsson sem hefur róið kajak í nokkur ár.

Ástæða þess að Andri Þór Arinbjörnsson keypti sér kajak fyrir nokkrum árum er sú að hann vildi stunda veiðar á sjó. Honum þótti kajakinn meira heillandi en mótorbáturinn en komst fljótlega að því að ákveðna grundvallarfærni þurfti til að geta stundað veiðar af kajak. Hann kynnti sér því starfsemi Kayakklúbbsins og fór að taka þátt í róðrum á vegum klúbbsins frá Geldinganesi. „Mér þótti sportið svo skemmtilegt að ég hætti að hugsa um veiðar sem eitthvert markmið en ég var búinn að róa í fjögur ár áður en ég prófaði fyrst að veiða á kajak. Ég fer af og til í veiðiferðir á kajak en í dag er ég aðallega að róa til að komast í skemmtilega útivist, hvort sem er í straumvatni eða á sjó.“

Hann segir helst heillandi við íþróttina hversu auðveldlega sé hægt að róa á fáfarna staði og raunar sé ótrúlega stuttur róður frá borginni út í fallega náttúruna. „Aðgengi er auðvelt og það er hægt að róa allt árið. Kraftarnir sem búa í hafinu eru miklir og fyrir þann sem hefur náð góðum tökum á kajak er ekki síður skemmtilegt að takast á við stórar öldur í blindbyl en að njóta kyrrðarinnar á sléttum sjó. Á kajak er hægt að komast í spennu í straumvatni, fossum eða stórum öldum, stunda þrekæfingar og keppa, fara í margra nátta ferðalög með viðlegubúnað eða njóta náttúrunnar í rólegheitum. Það er alltaf hægt að finna eitthvað skemmtilegt að gera á kajak og alltaf hægt að auka færnina.“

Róið niður eftir Markarfljóti en fyrsti leggurinn var um 30 km.

Langur undirbúningur

Síðasta sumar reri Andri á kajak frá Þórsmörk til Vestmannaeyja en ferðin var mikið ævintýri. „Sumarið 2015 var ég í Þórsmörk með fjölskyldunni og fór að velta fyrir mér hvort hægt væri að róa Markarfljótið. Auk þess átti ég alltaf eftir að róa til Vestmannaeyja en mér fannst tilvalið að sameina þetta í einni ferð. Það þarf margt að ganga upp til að hægt sé að fara í svona ferð og það liðu tvö ár frá því hugmyndin kviknaði og þar til ég hitti á réttu aðstæðurnar.“

Fyrsti leggur ferðarinnar hófst föstudagskvöldið 9. júní en þar var Andri í samfloti með tveimur félögum sínum, Þorbirni Sigurbjörnssyni og Birni Traustasyni. „Við skildum bíl eftir við gömlu Markarfljótsbrúna en fórum svo upp í Bása þar sem var sett á flot. Fyrsti leggur var 30 km og áin skiptist reglulega í tvennt og stundum þrennt og þá þurfti að meta mjög fljótt hvaða áll væri vatnsmestur. Nokkrum sinnum tókum við ranga leið en sluppum þó við mikið basl. Klukkan var orðin hálf tvö um nótt þegar við komum að bílnum en þá áttum við eftir að keyra aftur upp í Bása, tjalda og grilla.“

Ógnvænlegt brim

Eftir hádegi næsta dag var keyrt niður að ósi. Veðurspáin var slæm þannig að ákveðið var að róa ekki til Eyja þann daginn. Hins vegar var spáin fyrir sunnudaginn mjög góð. Björn hélt heim á leið og eftir voru þeir tveir, Andri og Þorbjörn.

„Við ákváðum að taka næsta legg niður að ósnum, skildum bílinn eftir þar en fengum far aftur að brúnni. Áin var mun vatnsmeiri þarna niður frá og auðveldara að forðast strand á seinni kaflanum. Talsverður straumur var við stólpa brúnna og meira að segja hægt að sörfa aðeins öldu við gömlu brúna. Nálægt ósnum lá fullt af sel uppi á sandinum og hef ég aldrei séð svona marga seli á einum stað en hersingin fylgdi okkur alveg á leiðarenda. Brimið í ósnum var ógnvænlegt og það var auðveld ákvörðun að taka dótið saman og segja þetta gott þennan daginn.“

Gekk á ýmsu

Daginn eftir hélt Þorbjörn heim en nýr félagi bættist í hópinn, Eymundur Ingimundarson, sem reri lokalegginn frá ósnum til Vestmannaeyja. „Brimið leit mun betur út frá landi og veðurspáin var góð en það átti að hvessa seinna um daginn þannig að við þurftum að drífa okkur til að sleppa við hvassan mótvind á leiðinni.“

Félagarnir settu á flot örlítið ofan við ósinn. Straumurinn var þó nokkur alveg út í sjó og þegar þeir komu nær sáu þeir að brimið var meira en það hafði virst frá landi. „Öldurnar risu óþægilega hátt á þessum kafla og í eitt skiptið sem ég leit aftur fyrir mig sá ég hvernig aldan hafði keyrt kajakinn hans Eymundar í kollhnís aftur á bak þannig að hann skaust upp eins og ofvaxinn korktappi. Auk þess stökk selur úr öldunni beint í áttina að mér þannig að við rákumst næstum því saman. Vatnsflaumurinn bar okkur frá mestu brimsköflunum og eftir þetta óvænta ævintýri gátum við haldið áfram ferð okkar til Eyja.“

Fallegur endasprettur

Sjólagið á leiðinni var mjög skemmtilegt að sögn Andra, undiralda og smá vindur á móti en þeir héldu fínum ferðahraða. „Við rerum á milli Bjarnareyjar og Elliðaeyjar og hægðum aðeins á ferðinni þegar við komum að eyjunum enda þurfti að mynda dýrðina og skoða vel. Eftir stutt stopp í Klettshelli rerum við inn í höfnina þar sem ég kvaddi Eymund eftir frábæran dag. Eftir smá snarl tók ég Herjólf til baka í faðm fjölskyldunnar.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Litlu upp­lifanirnar gefi lífinu mesta gildið

Fólk

Björk undir­býr mara­þon­hlaup: „Allt er gott í hófi“

Fólk

Vegan í Cross­Fit: „Sí­fellt al­gengara hjá í­þrótta­fólki“

Auglýsing

Nýjast

Kostnaður af lélegri svefnheilsu á við nýtt sjúkrahús

Þörf fyrir fræðslu um svefn í skólum

Skúli Mogen­sen og Gríma Björg á Sálna­safni

Breyting á klukku myndi bæta svefn

Fimm hlutu Fjöru­verð­launin í Höfða

Kitla Ari­önu fyrir nýjasta lagið vekur blendin við­brögð

Auglýsing