Saga Vivian Maier er góð áminning um það að sannleikurinn er ansi oft skáldskapnum ótrúlegri. Þegar barnfóstran Vivian Maier lést árið 2009 virtist hún hafa skilið lítið eftir sig annað en kassa fulla af drasli. En annað átti eftir að koma í ljós.

Vivian Dorothy Maier fæddist árið 1926 og starfaði í fjörutíu ár sem barnfóstra, mest í Chicago. Hún tók meira en hundrað þúsund ljósmyndir í frítíma sínum og þá helst af fólki og byggingum í Chicago, New York og Los Angeles. Hún ferðaðist einnig með fjölskyldunum sem hún starfaði fyrir og tók því líka ljósmyndir víða um heim.


Vivian var algjörlega óþekkt. Og ljósmyndir hennar líka. Engar af þeim höfðu birst opinberlega fyrr en safnari í Chicago, John Maloof, komst yfir kassa af filmum með ljósmyndum hennar árið 2007 á uppboði. Áhugi hans var vakinn og næstu árin átti John eftir að leita uppi enn fleiri myndir.

John birti nokkrar mynda hennar á myndasíðunni Flickr þar sem þær vöktu forvitni.

Ljósmyndir hennar þykja bæði kraftmiklar og fágaðar. Ekki síst þótti fólki forvitnilegt að manneskja svo miklum hæfileikum gædd hefði ekki viljað láta á því bera. Auðmýktin gagnvart listforminu fannst fólki greinileg í ljósmyndum hennar.

Margar ljósmynda Maier gefa innsýn í líf Bandaríkjamanna á eftir­stríðsárunum. Hún tók oft myndir af fólki án þess að það yrði þess vart og gerði það af hlýju og húmor.


John Maloof sagði að í fyrstu hefðu listasöfn sem hann sýndi myndirnar viljað flokka hana sem áhugaljósmyndara þrátt fyrir augljósa hæfileika. Það átti eftir að breytast.

Þegar nafn Vivian Maier er slegið inn í leitarvélar fást nærri því milljón niðurstöður. Í þeim má lengi grúska og margar þeirra hver annarri forvitnilegri. En meðal þeirra dylst ein sem lýsir mannkostum hennar vel. Það er minningargrein úr Chicago Tribune sem uppkomin börn fyrrverandi vinnuveitenda hennar skrifuðu. „Það sem ég hafði áhuga á er, hver var hún?“ sagði John sem fann einmitt þessa minningargrein um Vivian og leitaði uppi þá sem hana skrifuðu. Uppkomin börn vinnuveitenda hennar.

„Vivian Maier, að uppruna frá Frakklandi og búsett í Chicago síðustu fimmtíu árin, lést á mánudag. Hún var John, Lane og Matthew sem önnur móðir. Frjáls í anda og snerti líf allra þeirra sem þekktu hana. Alltaf tilbúin til að deila hug sínum, gefa ráð eða rétta hjálparhönd. Kvikmyndarýnir og undraverður ljósmyndari. Einstök manneskja sem verður sárt saknað en við fögnum löngu og yndislegu líf hennar og minnumst hennar ávallt.“