Dröfn Guðmundsdóttir, sérfræðingur í mannauðsmálum, segir skipta öllu máli að fólki líði vel í vinnunni og starfsandinn sé góður.

„Það eru ótal leiðir sem hægt er að fara til að bæta andann, en í mínum huga er það langhlaup að byggja upp sterka fyrirtækjamenningu og starfsumhverfi sem laðar fram það besta í starfsfólki. Mikilvægur hluti í sterkri fyrirtækjamenningu er að starfsfólki líði vel í vinnunni, að það sé í verkefnum sem það hefur gaman af, hafi tækifæri til að læra og þroskast og að það ríki traust og virðing í starfsmannahópnum. Svo er alltaf gott fyrir starfsandann að gera skemmtilega hluti saman og að fólk trúi að vinnan þess hafi tilgang. Sérstaklega þegar hluti starfsmanna vinnur heima, þá er enn mikilvægara að hlúa vel að félagslega þættinum,“ segir hún.

Dröfn segir hægt að fara fjölbreyttar leiðir til að hafa jákvæð áhrif á starfsumhverfið.

„Ein af þeim er að eiga í góðum samskiptum við starfsfólk og fá þau með í lið og að ýta undir frumkvæði þeirra. Það koma oft frábærar hugmyndir frá starfsfólkinu. Eitt dæmi í vinnunni hjá mér er að starfsmaður kom með hugmynd um að fá nuddara reglulega í hús og tókum við vel í þá hugmynd og það gleður sannarlega að hafa aðgengi að nuddara af og til á vinnutíma,“ segir hún.

Dröfn segir að á hennar vinnustað, en hún er framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Origo, séu gerðar púlsmælingar í hverjum mánuði þar sem starfsfólk er spurt um starfsandann. Niðurstöðurnar hafa verið góðar úr mælingunum en ef þær lækka er strax gripið inn í og rætt í sameiningu um hvað er hægt að gera til að bæta hann.

„Öflugt félagslíf er líka gott til að brjóta upp á hversdagsleikann. Það getur verið svo margt, til dæmis fræðsluerindi með kaffinu um málefni sem brenna á starfsfólkinu, alls kyns klúbbar í kringum áhugamál starfsfólks og fjölbreyttir viðburðir. Á mínum vinnustað eru starfsmannaviðburðir aftur að fara í gang eftir að slakað var á samkomutakmörkunum og því mikið um að vera. Fram undan er meðal annars hakkaþon sem við köllum ofurhetjudaga, þar sem við ætlum að gefa starfsfólki tækifæri á að þróa nýjar lausnir á 24 tímum. Svo eru alls kyns pop up-viðburðir fram undan með tónlist, kræsingum og leikjum. Starfsmannafélagið skipuleggur fjölbreytta viðburði á hverju ári eins og hrekkjavöku og árshátíð sem mikill metnaður er lagður í,“ segir hún.

Áskorun að finna gjöf

Aðspurð um hvort gjafir til starfsfólks um jól skipti máli fyrir starfsandann segir Dröfn að jólagjafir gleðji að sjálfsögðu.

„Það er gaman að þiggja en það er líka gaman að gefa. Það er hægt að fara fjölbreyttar leiðir til að gleðja. Það getur verið áskorun að finna gjöf sem fellur í kramið ef um stóra fjölbreytta hópa er að ræða. Þess vegna hefur mér þótt mjög sniðugt að gefa tvo valkosti. Það er auðveldara í útfærslu en maður heldur að gefa fólki val og það er mín reynsla að það vekur meiri lukku. Svo eru komnar leiðir sem hjálpa manni við að útfæra slíkt val eins og hjá YAY sem eru með opin gjafabréf sem hafa slegið í gegn,“ segir Dröfn.

„Á mínum vinnustað höfum við í gegnum árin prófað ýmislegt, bæði vörur frá okkar verslun, útivistarfatnað, matarkörfur, hótelgistingu og margt fleira. Við búum svo vel að vera með frábært vöruúrval í verslun okkar og oftast gefum við starfsfólki nokkra valkosti og þá höfum við alltaf með sem valkost að starfsfólk geti keypt vörur frá okkur, sem er oftast vinsælasti valkosturinn. Síðan gefst starfsfólkinu okkar einnig kostur á að taka þátt til dæmis í samstarfsverkefni með Rauða krossinum – og þá erum við að gleðja aðra með því að kenna til dæmis á tölvur í Afríku.“ ■