Kvikmyndir

The Invisible Man

★★★

Leikstjórn: Leigh Whannell

Aðalhlutverk: Elisabeth Moss, Oliver Jackson-Cohen, Harriet Dyr, Aldis Hodge

Hinn ósýnilegi maður H.G. Wells er eitt rótgrónasta innlegg vísindaskáldskapar í vestrænni dægurmenningu og eflaust hafa allir einhvern tímann velt því fyrir sér hvers konar óskunda þeir myndu fremja ef enginn sæi til. Fjöldi misgóðra mynda hefur verið gerður eftir hugmyndinni og er röðin nú komin að efnilega leikstjóranum Leigh Whannell.

Myndin segir frá Ceciliu, ungri konu sem safnar kjarki og flýr hræðilegt langtímasamband við ofbeldisfullan kærasta sinn, Adrian. Þegar hún fær fregnir af því að hann hafi svipt sig lífi virðist Cecilia loks í stakk búin til að koma lífi sínu aftur á strik. Í kjölfarið kemur hrina af dularfullum atburðum sem plaga hana og Cecilia byrjar að efast um að hún sé laus við Adrian.

Ágætlega tekst til að tvinna viðkvæman efnivið ofbeldissambanda við hryllinginn. Elisabeth Moss stendur sig vel enda orðin ansi vön að leika konur í ömurlegum aðstæðum. Hún skiptir vel á milli tilfinningalegs uppnáms og þess að þurfa að þykjast glíma við ósýnilegan mann. Verri leikkona hefði eflaust gert þetta allt saman heldur hlægilegt.

Myndataka og hljóðvinna eru til fyrirmyndar og virka vel til að byggja upp spennu. Áhorfandinn er stöðugt á nálum við að ímynda sér hvar ósýnilegi maðurinn gæti verið og verður að hafa augun og eyrun opin til að missa ekki af minnstu vísbendingum. Tæknibrellurnar eru vel útfærðar og frekar látlausar, og líkt og í myndinni Upgrade tekst Whannell að gera mikið með lítið.

En líkt og í mörgum öðrum hryllingsmyndum er uppbyggingin það besta við myndina. Þegar hasarinn byrjar er lítið nýtt í gangi og hefði betur mátt staldra lengur við óvissuna um hvort og hvar einhver sé að fylgjast með. Whannell hefur áður sýnt að hann geti leikstýrt frábærum hasar en hér virkar hann ekki alveg.

Niðurstaða: Á heildina litið er The Invisible Man spennandi skemmtun og góð útfærsla á þessari klassísku hugmynd, þótt það sé lítið afrek að toppa Hollow Man.