Bresku BAFTA-verðlaunin voru afhent um helgina en þau þykja jafnan gefa nokkuð góðar vísbendingar um hvernig Óskarsverðlaununum verður útdeilt, þar sem talsverð skörun er milli bandarísku akademíunnar og þeirrar bresku.

Kvikmyndin Nomadland og leikarinn Anthony Hopkins fengu því ágætis byr í seglin frá London þar sem Nomadland var valin besta myndin, auk þess sem kvikmyndatakan var verðlaunuð og leikstjórinn og aðalleikkonan Frances McDormand fengu verðlaunin í sínum flokkum.

Anthony Hopkins hreppti BAFTA-verðlaunin sem besti leikarinn fyrir túlkun sína á heilabiluðum manni í The Father, en fyrirfram gerðu margir ráð fyrir að Chadwick heitinn Boseman ætti verðlaunin vís fyrir Ma Rainey’s Black Bottom.

Útlitið er því bjart hjá Dormand og Hopkins en þó ber að hafa í huga að BAFTA-þykir ekki gefa jafn skýra mynd af því sem búast má við af Óskarnum, þar sem brugðist var við kvörtunum um að akademían hafi verið allt of „hvít“ í fyrra með því að taka í fyrsta sinn inn álit dómnefndar í helstu flokkum.