Björgvin Jónsson opnaði nú fyrir helgi samsýningu með þeim Einari Snorra og Gotta Bernhöft sýningu í Öskur Gallerý í Miðstræti. Björgvin er nú snúinn heim aftur til Íslands eftir sex ár í New York, þar sem hann lærði það sem kallast „mixed media“ í School of Visual Arts.

„Ég nota sem sagt mismunandi miðla í listsköpun minni,“ segir Björgvin.

Listin birt um alla borg

Á fjórða ári hans við skólann var honum boðið að taka þátt í stórri sýningu á vegum MvVO, sem er þekkt fyrirtæki innan listabransans fyrir framsæknar hugmyndir í miðlun lista.

„Maria Van Vlodrop, stofnandi fyrirtækisins, leitast eftir því við skólann minn að eiga í samstarfi að sýningu. Fjórir nemendur eru valdir, þannig að það þótt nokkur heiður að tilheyra þeim hópi. Sýningin var haldin í Sotheby's og gekk mjög vel. Fyrirtækið sjálft er ekki með eigið gallerí og notar fyrst og fremst síðuna Artsy til að koma listinni á framfæri, hún er nokkurs konar netvettvangur til að skoða og kaupa list,“ segir Björgvin.

Björgvin útskrifaðist með láði frá skólanum og var einn af tuttugu nemendum við skólann sem var valinn til að birta verk sín í bók sem gefin er út árlega af skólanum.

„MvVO gerir svo samning við LinkedIn í New York sumarið eftir útskriftina hjá mér og birtir verkin mín, meðal annarra, á auglýsingaskiltum útum alla borgina. Mér fannst það mjög gaman,“ segir hann.

Eftir útskriftina fer Björgvin að leita sér að vinnu, sem hann finnur hjá Sotheby's í gegnum kunningja sinn sem starfaði einnig hjá fyrirtækinu.

„Hann er sem sagt vinur systur minnar og kemur á sýningar hjá mér úti. Hann reddar mér svo vinnu hjá Sotheby's. Þar starfaði ég sem svokallaður „art handler“. Ég sá um að setja upp sýningarnar og meðhöndla verkin. Ég vann þarna í aðeins meira en hálft ár. Þetta var alveg ótrúlega mikil vinna, nánast eins og að vera á einhverjum frystitogara. Starfsdagurinn var oftast um fimmtán klukkutímar, virka daga og helgar. Þá var lítill tími til að sinna listinni. Maður gat aldrei hitt vini sína en var kominn með helling af pening, en fékk aldrei tækifæri til að eyða honum,“ segir Björgvin og hlær.

Kúplaði sig niður

Hann segir að starfið hafi þó reynst ágætur stökkpallur að því leyti að hann gat stækkað tengslanetið gríðarlega.

„Ég kynntist til dæmis konu á sýningu í Sotheby's sem fær mig til að taka þátt sýningu í Los Angeles. Þegar þessar löngu vaktir blönduðust við það að þurfa vinna að listinni fyrir sýninguna þá var enginn tími eftir fyrir svefn. Þá áttaði ég mig á því að ég yrði að fara að kúpla mig aðeins niður og gefa mér meiri tíma í listina.“

Björgvin ákvað þá að nýta tímann í að hreinsa hugann og ferðast um Evrópu, þar sem hann hafði eignast marga vini vítt og breitt um heimsálfuna í skólanum í New York.

„Skólinn var mjög fjölþjóðlegur en New York er líka bara ótrúlega fjölþjóðleg borg. Þar er endalaust að sjá og skoða, og fólk hvaðanæva að. Maður fær að upplifa menningu svo margra ólíkra landa.“

Nýtt gallerí

Eftir Evrópureisuna fékk Björgvin bréf frá Artifact gallerí í New York.

„Í því var mér boðið að vera með verk í galleríinu og öðrum stórum sýningum. Ég náði að taka þátt í einni sýningunni í Los Angeles, en síðan skellur heimsfaraldurinn á.“

Björgvin stefndi á að taka meistaranámið í Bandaríkjunum en vegna Covid-19 var því öllu slegið á frest. Hann ákvað því að finna sér aðstöðu hérna í Reykjavík til að vinna að list sinni og fékk rýmið í Miðstrætinu.

„Þetta er stórt rými og ég var bara einn þannig að ég fæ Einar og Gotta með í stúdíóið. Við höfum þrír tekið þetta allt saman í gegn. Svo ákváðum við að hafa gallerí fremst í rýminu og mér fannst Öskur mjög viðeigandi nafn, svona í ljósi alls sem við erum að upplifa á þessum tímum. Alla langar að öskra,“ segir hann og hlær.

Sýningin í Öskur Gallerí stendur yfir út mánuðinn.