Líf­vörður konungs er kominn í bresku blöðin eftir að hafa öskrað á litla stelpu að koma sér í burtu þar sem hann gekk reglu­bundinn hring um lóð bresku konungs­fjöl­skyldunnar.

Málið hefur vakið mikla at­hygli í Bret­landi og segir breska götu­blaðið The Sun að segja megi að þjóðin skiptist í tvær fylkingar vegna málsins. Sumir segja að vörðurinn hafi einungis sinnt skyldu sinni.

Í mynd­bandinu má sjá að litlu stelpunni kross­bregður þegar vörðurinn öskrar skyndi­lega á hana að koma sér í burtu. Rauð­klæddu líf­verðirnir eru enda heims­frægir fyrir að standa stóískir fyrir framan byggingar bresku konungs­fjöl­skyldunnar og láta oftast lítið á sér bera.

Um­ræddur vörður var hins­vegar að ganga sér­stakan eftir­lits­hring en margir ferða­menn flykkjast sér­stak­lega að slíkum vörðum til að taka með sér myndir af þeim.

„Þessir verðir eru ekki hugsaðir sem að­dráttar­afl fyrir ferða­menn,“ skrifar einn Breti á sam­fé­lags­miðlum. Annar segist ekki skilja hvers vegna vörðurinn gat ekki tekið til­lit til litlu stelpunnar.

Mynd­bandið má sjá á vef The Sun hér. Sam­bæri­legt mynd­band er hér að neðan þar sem sami vörður, að því er virðist, er á vaktinni.