Fósturmissir Meghan Markle og Harry Bretaprins þjappaði konungsfjölskyldunni saman í sorginni í sumar. Þetta fullyrðir heimildarmaður bandaríska slúðurmiðilsins US Weekly sem segir Karl Bretaprins hafa reynst parinu vel.
Líkt og fram hefur komið varð fjölskyldan unga, þau Meghan, Harry og Archie fyrir áfallinu í sumar. Hún greindi frá tíðindunum í einlægri grein sem birtist í New York Times á dögunum.
Í Us Weekly kemur fram að breska konungsfjölskyldan hafi staðið þétt að baki hjónunum í sorginni. Sjálf hefur konungsfjölskyldan tekið fram í tilkynningu að ekkert opinberlega verði haft eftir henni vegna málsins, enda um afar persónulegt mál að ræða.
„Karl hefur stutt dyggilega við bakið á Harry og Meghan á þessum sorgartímum. Það er mikil sorg í konungsfjölskyldunni fyrir þau Harry og Meghan,“ segir heimildarmaðurinn bandaríska miðlinum en hann er sagður innanbúðarmaður í fjölskyldunni.