RÚV hefur landað samningi um að sýna frá af­hendingu Óskars­verð­launanna næsta sunnu­dag í beinni út­sendingu. Skarp­héðinn Guð­munds­son, dag­skrár­stjóri RÚV, stað­festi þetta en í sam­tali við Frétta­blaðið í gær sagðist hann ekki vera sér­stak­lega von­góður um að samningur myndu nást. Í frétt sem birtist á RÚV í dag segir Skarp­héðinn :

„Við vorum ekkert sér­stak­lega von­góð á að geta gengið frá því að tryggja réttinn á einni há­tíð, sem þeir hafa ekki verið mjög opnir fyrir hingað til. Það gekk á endanum þegar við notuðum þetta tromp, að það væri þessi Ís­lands­tenging. Þeir tóku mark á því.“

Skarp­héðinn vísar þar til þess að Ís­lendingurinn Gísli Darri Hall­dórs­son er til­nefndur til Óskars­verð­launa fyrir mynd sína Já-fólkið í flokknum Besta stutta teikni­myndin auk þess sem eitt af skemmti­at­riðum há­tíðarinnar var tekið upp á Húsa­vík en þar flytur sænska söng­konan Molly Sandén lagið Husa­vik – My Home Town úr myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga sem til­nefnt er í flokknum Besta frum­samda kvik­mynda­lagið.

Bæjar­há­tíðar­bragur á Húsa­vík

Hjálmar Bogi Haf­liða­son deildar­stjóri Borgar­hóls­skóla á Húsa­vík segir mikla eftir­væntingu vera hjá Hús­víkingum fyrir verð­launa­af­hendingunni.

„Það er bara svona bæjar­há­tíðar, mæru­dags­stemning. Það er gleði og bros á hverju and­liti, sér maður,“ segir Hjálmar.

Stúlkna­kór sem saman­stendur af nem­endum úr 5. bekk Borgar­hóls­skóla syngur með Molly Sandén í Óskars­at­riðinu sem tekið var upp á Húsa­vík í síðustu viku. Hjálmar segir stúlkurnar vera gífur­lega spenntar fyrir að fylgjast með verð­launa­af­hendingunni og þær stefni hrein­lega á heims­frægð.

„Þær komu til mín strax á mánu­deginum eftir að það var búið að taka þetta upp. ‚Hjálmar, við viljum bara stofna al­vöru kór.‘ Þær vilja fara alla leið, það er bara heims­frægð,“ segir Hjálmar og hlær.

Hann býst sterk­lega við því að stúlkurnar muni fá leyfi frá for­eldrum sínum til að vaka fram eftir og horfa á út­sendinguna enda senni­lega fáir 5. bekkingar í heiminum sem hljóta þann heiður að koma fram á Óskars­verð­laununum. Hjálmar segist von­góður um að landa Óskarnum heim en eins og Frétta­blaðið greindi frá í dag hafa höfundar lagsins lofað því að styttan muni heim­sækja bæinn hljóti lagið verð­launin eftir­sóttu.

„Alla­vega verður Húsa­vík bara á skjá allra lands­manna og út um allan heim á sunnu­dags­kvöld. Það er bara svo­leiðis,“ segir Hjálmar.

Út­sending frá af­hendingu Óskars­verð­launanna hefst á mið­nætti næst­komandi sunnu­dag og verður henni lýst í beinni út­sendingu af Huldu Geirs­dóttur eins og fyrri ár.