Þrjátíu ár voru í gær liðin frá því lokaþáttur Dallas, einnar vinsælustu sápuóperu allra tíma, var sendur út í Bandaríkjunum eftir um það bil þrettán misfarsæl ár. Ríkissjónvarpið hóf sýningar á þáttunum þann 6. maí 1981 og óhætt er að tala þar um tímamót í dægurmenningarsögunni.

Einnar-sjónvarpsstöðvar-þjóðin tók hinni vellauðugu og spilltu Ewing-fjölskyldu opnum örmum og í byrjun níunda áratugarins voru miðvikudagskvöld heilög á fjölmörgum heimilum landsins þar sem fjölskyldan sameinaðist agndofa fyrir framan sjónvarpstækin og sökkti sér ofan í draumaheim ríka og fallega fólksins í Dallas.

Óskar Magnússon, lögmaður, rithöfundur og bóndi, var blaðamaður á DV þegar J.R. Ewing og hans fólk lagðist á þjóðarsálina og hann segist hafa fylgst með þáttunum af einlægum áhuga.

Larry Hagman í hlutverki J.R. ásamt Mary Crosby sem lék fláráða mágkonu hans, Kristen, sem reyndi að drepa hann áhorfsmetþættinum Hver skaut J.R.?
Fréttablaðið/Getty

„Ég fylgdist með þessu alveg af fullkomnum áhuga og öll fjölskyldan og ég tel að þetta sé eitthvert albesta sjónvarpsefni sem hefur verið gert. Man ekki eftir öðru betra. Þetta var eins og önnur fjölskylda manns, þetta fólk,“ segir Óskar um Ewing-fjölskylduna og hlær eftir að hafa meðtekið að sléttir þrír áratugir séu síðan þættirnir runnu sitt skeið.

Ódeigur baráttumaður

„J.R. var minn maður. Menn þorðu nú ekki að viðurkenna það opinberlega að þeir styddu hann vegna þess að hann var svoddan sko refur en í hjarta sínu vissu þeir að hann bar þættina uppi. En menn þorðu ekki að styðja karakterinn,“ segir Óskar sem gerðist svo djarfur að koma J.R. til varnar í fjölmiðlapistli í DV í nóvember 1982.

Óskar Magnússon rámar í lokaþáttinn þar sem J.R. virtist stytta sér aldur. „Mig minnir nú að það hafi alveg verið kominn tími á þetta og þegar þarna var komið sögu var skáldagáfan orðin dálítið gassaleg.“ Fréttablaðið/Eyþór

„Já, já. Ég gerði það,“ heldur Óskar áfram hlæjandi. „Ég skrifaði grein sem hét til varnar Jóni Reyni,“ segir hann um pistilinn sem hann hóf með því að gangast við því að vera alkunnur aðdáandi Dallas-þáttanna og hafa ekki misst úr einn einasta þátt frá upphafi.

„Í gærkvöldi varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Eftir að litla systir Sue Ellen kom til sögunnar hefur lifnað mjög yfir þættinum en fagurt kvenfólk er óbrigðull mælikvarði á slíkt,“ hélt Óskar áfram og varði síðan sinn mann, J.R. eða Jón Reyni.

„Jón Reynir reynir áfram á öllum vígstöðvum. Það er annars undarlegt hversu mikilli andstöðu hann virðist mæta meðal almennings hér á landi. Þarna er á ferð ódeigur baráttumaður, sem hvergi lætur sinn hlut þrátt fyrir ofurefli pólitísks valds sem beitt er gegn honum á óbilgjarnan hátt.“

Olíukóngar á Olís

„Þú sérð að þetta var búið að koma sér vel fyrir í þjóðarsálinni og var ekki auðveldlega yfirgefið,“ segir Óskar og vísar til uppnámsins sem varð þegar RÚV hætti að sýna þættina 1984 en óánægja almennings var ekki síst viðruð á lesendasíðum Morgunblaðsins.

Óskar fór hvorki leynt með áhuga sinn á Dallas né aðdáun á J.R. Ewing, sem hann kallaði Jón Reyni, í fjölmiðlapistli í DV í nóvember 1982.

Þá er það til marks um vinsældirnar að fólk streymdi á bensínstöðvar Olís eftir að einhver á þeim bænum fékk þá snilldarhugmynd að laða fólk að bensíndælunum með því að leigja út nýjustu þættina á VHS-myndböndum. Stöð 2 sá sér síðar leik á borði, tók við keflinu og Dallas kláraðist þar 1992. Um það bil ári seinna en í Bandaríkjunum.

Dallas! Hvar er sjónvarp?!

„Við erum ekki mikið sjónvarpsfólk og höfum aldrei verið á mínu heimili en með þessu var fylgst af mikilli athygli,“ segir Óskar og áréttar mikilvægi Dallas með gamansögu af dr. Gunnlaugi Þórðarsyni heitnum, hæstaréttarlögmanni.

„Hann var í fínu matarboði á miðvikudagskvöldi þegar hann lítur á klukkuna, sprettur á fætur og segir: Dallas! Dallas! Dallas! Hvar er sjónvarp? Hvar er sjónvarp? Dallas! Dallas! Svo bara stóð hann upp og æddi inn í stofu þar sem var sjónvarp. Hann stóð upp frá borðum til þess að horfa á Dallas og lét fínt elítu matarboð ekkert aftra sér frá því að horfa á Dallas. Þannig að þú sérð að það voru vandaðir menn sem fylgdust með þessu. Þetta var ekkert hjóm.“