Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar, óskar eftir innsendum tillögum að haustsýningu ársins 2023. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 og síðan þá hafa tólf sýningar verið valdar úr miklum fjölda innsendra tillagna eftir sýningarstjóra með ólíkan bakgrunn og reynslu.
Í tilkynningu frá Hafnarborg segir að markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum sé að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi með áhugaverða sýningartillögu og vera vettvangur fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Sýningarstjórar með stuttan feril að baki eru sérstaklega hvattir til að sækja um.
„Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð og/eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Þá er það listráð Hafnarborgar sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna í samráði við forstöðumann.“
Haustsýning ársins 2021 var sýningin Samfélag skynjandi vera í sýningarstjórn Wiolu Ujazdowska og Huberts Gromny. Í þeirri sýningu var fjölbreyttum hópi listamanna og fræðimanna boðið að taka þátt til að skapa vettvang þar sem margar raddir mættust og ólíkir möguleikar tjáningar og skynjunar voru skoðaðir.
Haustsýning Hafnarborgar 2022 verður sýningin flæðir að – flæðir frá, í sýningarstjórn Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur, sem verður opnuð 10. september næstkomandi. Á sýningunni verður sjónum beint að strandlengjunni, sem er jafnt stórbrotin og uppfull af smáum lífverum, viðkvæmum gróðri og fjölbreyttum steinategundum. Listamennirnir lda Mohr Eyðunardóttir, Anna Rún Tryggvadóttir, Pétur Thomsen, Stuart Richardson, Studio ThinkingHand (Rhoda Ting og Mikkel Dahlin Bojesen) og Tadashi Ono munu skoða strandlengjuna þar sem takast á hið stóra og ofsafengna, hið smáa og viðkvæma.
Frestur til að skila inn tillögum er til miðnættis sunnudaginn 18. september 2022 og aðeins er tekið við tillögum í tölvupósti á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.