Sælureiturinn Betlehem í Borgarfirði er nú til sölu.

Um er að ræða hjólhýsi með 15 fm viðbyggingu og lítið hjólhýsi, um það bil átta kílómetra frá Borgarnesi.

Eigandinn, Guðlaugur Jóhannsson, auglýsir slotið í Brask og brall grúbbunni á Facebook og lætur þess getið að hann sé til í að skoða skipti á þessum sælureit og góðum húsbíl en óskar annars eftir tilboðum.

Í lýsingu hans segir að Betlehm standi á leigulóð, sem greiða þurfi 50 þúsund krónur fyrir á ári. Ásamt hjólhýsunum og viðbyggingunni fylgir góður geymsluskúr og 3 minni skúrar. Þá er vatn á svæðinu á sumrin eða frá 1.maí til 1.október. Einnig er lítið mál að taka með sér vatn, að því er fram kemur í lýsingu.

Þá býður Guðlaugur mikið af verkfærum með í kaupunum ásamt nýrri rafstöð.

„Bjart er yfir Betlehem“

Guðlaugur segir sögu á bak við nafnið á bústaðnum.

Þetta hét áður Litli bær. Við hjónin keyputm þetta fyrir sex árum af eldra fólki og vissum ekkert hvar þetta var. Þau kipptu okkur með sér í bíl og óku okkur á staðinn í ausandi rigningu. Svo þegar við erum komin framhjá Borgarnesi, bendir konan okkur beint fram fyrir bílinn og segir: Þetta er þarna akkúrat þar sem sólin skín.“ Þá fóru allir í bílnum að synja: „Bjart er yfir Betlehem“ og svo bara festist nafnið og við aldrei kallað húsið neitt annað.“

Guðlaugur segir þau hjónin hafa gert mikið fyrir staðinn, eins og bersýnilegt er af myndunum og lýsingunni.

Vilja gera minna og ferðast meira

„Maður er endalaust að þegar við erum þarna,“ segir hann en nú langar þau að vinna minna í fríum og ferðast meira. Það er megin ástæða þess að þau bjóða slotið til sölu og kanna skipti með húsbíl í huga.

Guðlaugur segir verkfærakostinn sem fylgi húsinu mikinn. „Ætli þetta séu ekki tuttugu skóflur, átta hamrar, ógryni af sögum,“ segir Guðlaugur og heldur áfram að telja heilmikinn verkfærakost sem fylgir húsinu.

Áhugasamir geta kynnt sér Betlehem á síðunni Brask og brall á Facebook.