Erna Ómars­dóttir, list­dans­stjóri Ís­lenska dans­flokksins, fer yfir komandi dans­ár. Árið 2023 er fimm­tíu ára af­mæli Ís­lenska dans­flokksins og verður blásið til mikillar af­mælis­veislu með fjöl­breyttum sýningum og verk­efnum.

„Af­mælis­árið okkar verður mikil gleði og veisla. Eitt af þemunum er hug­myndin um hvað það þýðir að eiga af­mæli sem stofnun. Það er fróð­legt að skoða hvernig stofnun eldist í saman­burði við manns­líkamann. Þá er ýmis­legt sem kemur upp, eins og sagan og hvernig og hvar þetta hófst allt saman,“ segir Erna.

Fimm­tíu ára af­mælis­há­tíð Ís­lenska dans­flokksins verður haldin 29. apríl á al­þjóða­degi dansins og að sögn Ernu mun flokkurinn þá leggja undir sig öll svið Borgar­leik­hússins en dag­skrá hennar er enn í mótun.

Sýningin Ball eftir Alexander Roberts og Ásrúnu Magnúsdóttur snýr aftur eftir góðar viðtökur á síðasta dansári.
Mynd/Hörður Sveinsson

Eldri sýningar í bland við nýjar

Dans­árið 2022–2023 hefst á tveimur eldri sýningum, Balli eftir Alexander Roberts og Ás­rúnu Magnús­dóttur og Hvíla sprungur eftir Ingu Maren Rúnars­dóttur, sem fengu hvor um sig fjórar til­nefningar til Grímunnar.

„Við byrjum á sýningum sem við kláruðum árið á sem eiga eitt­hvað inni, Ball og Hvíla sprungur. Mjög ó­líkar en alveg frá­bærar sýningar þar sem dansinn er heiðraður. Svo er fyrsta frum­sýningin, Geigen­geist, sem verður á Litla sviðinu 11. nóvember. Við höfum ekki mikið verið að sýna á því sviði en það er svo skemmti­legt að það er hægt að nýta það fyrir ó­hefð­bundnar upp­setningar,“ segir Erna.

Geigen­geist er verk eftir teknó­fiðlu­dúóið Geigen. Verkið er unnið í sam­starfi við Ís­lenska dans­flokkinn, Tönju Huld Levý búninga­hönnuð og Sean Pat­rick O’Brien lista­mann. Geigen skipa Gígja Jóns­dóttir og Pétur Eggerts­son.

„Þau koma úr dansi, mynd­list og tón­list og koma með sinn stíl þar sem er barokk í bland við teknó, neon­liti og fiðlur. Þau eru að blanda saman hlutum á mjög skemmti­legan hátt. Það er kannski eitt af því sem manneskjan er oft að gera, endur­upp­götva hluti og setja þá í nýtt sam­hengi,“ segir Erna.

Hvíla sprungur eftir Ingu Maren Rúnars­dóttur fékk fjórar til­nefningar til Grímunnar á þessu ári.
Mynd/Ragnar Axelsson

Ferða­lag á milli dans­líkama

Eftir ára­mót verður verkið Hring­rás eftir Þyri Huld Árna­dóttur frum­sýnt 3. febrúar. Um er að ræða dans­verk til heiðurs kven­líkamanum sem sam­einar mynd­list, tón­list og dans í heild­ræna hring­rás. Verkið er sam­starf Þyri og Urðar Hákonar­dóttur tón­listar­manns, Sögu Sigurðar­dóttur ljós­myndara og Júlíönu Stein­gríms­dóttur, búninga- og sviðs­mynda­hönnuðar.

„Hring­rás er sprottið út úr sóló­verk­efni eins af okkar elstu dönsurum í flokknum, Þyri Huldar Árna­dóttur. Þetta er sam­starf hennar og Urðar Hákonar­dóttur, þær eru báðar á sviðinu og vinna þetta í sam­starfi með dans og tón­list. Þetta er eitt af þeim verk­efnum sem spruttu upp úr Co­vid. Grunn­hug­myndin að Hring­rás kom úr svo­kölluðu ör­verki, sem voru vídeó­­verk­efni sem dansararnir unnu á þessum tímum þegar fólk mátti ekki koma saman í hóp. Úr því þróaðist stærra sviðs­verk sem við hlökkum til að frum­sýna í febrúar,“ segir Erna.

Annað eldra verk sem sett verður upp á af­mælis­ári Ís­lenska dans­flokksins er Black Mar­row eftir Damien Ja­let og Ernu Ó­mars­dóttur með tón­list eftir Ben Frost. Verkið var upp­haf­lega samið 2009 og hlaut Grímu­verð­laun fyrir tón­list ársins 2015. Black Mar­row fer í al­mennar sýningar í lok febrúar en einnig verður boðið upp á skóla­sýningar fyrir grunn­skóla­nema í 9. bekk.

„Þetta var samið fyrir dans­hóp í Mel­bour­ne 2009, svo endur­unnum við þetta hér 2015 með dönsurum úr Ís­lenska dans­flokknum. Um er að ræða vanga­veltur um olíuna og hið góða og slæma sem henni fylgir. Þá voru lofts­lags­breytingar ekki eins á­þreifan­legar og í dag. Þetta er eitt af þeim verk­efnum sem margir dansarar hafa dansað í og fal­legt dæmi um hvernig dansarinn tekur efni og heldur á­fram að þróa það og gera að sínu. Hvernig hlutir ferðast frá dans­líkama til næsta dans­líkama,“ segir Erna.

Ef ein­hverjum dettur í hug að gefa okkur ein­hverjar gjafir þá viljum við bara fá pláss og okkar eigið hús­næði.

Berjast við að fá viður­kenningu

Finnst þér miklar breytingar hafa átt sér stað í dans­heiminum undan­farin ár?

„Já, það er margt búið að gerast. Bæði með stofnun dans­deildar LHÍ og Dans­verk­stæðisins. Auð­vitað mætti vera meiri stuðningur og við erum alltaf að berjast við að fá smá viður­kenningu. Að vera á sama stað og leik­húsin og Sin­fónían, af því þetta er list­form sem á það alveg skilið.“

Þá segir Erna að ein helsta ósk Ís­lenska dans­flokksins á fimm­tíu ára af­mælinu sé að fá sitt eigið dans­hús: „Það er náttúr­lega það sem við erum að vonast eftir. Á fimm­tíu ára af­mælinu þá er það svona efst á óska­listanum. Ef ein­hverjum dettur í hug að gefa okkur ein­hverjar gjafir þá viljum við bara fá pláss og okkar eigið hús­næði,“ segir Erna og hlær.

Í desember hefjast svo aftur sýningar á verkinu Dag­draumar eftir Ingu Maren Rúnars­dóttur sem er dans­verk fyrir börn er hlaut þrjár til­nefningar til Grímunnar 2021.

„Við erum að leggja á­herslu á fræðslu­starf og að fara meira á lands­byggðina núna í ár. Við tökum Dag­drauma upp aftur sem er ó­trú­lega fal­leg barna­sýning og förum með hana á Austur­land. Eitt­hvað sem við gerðum líka í Co­vid var að fara í resi­densíur út á land. Það var ó­trú­lega gefandi að geta gert það því við erum búin að vera mjög mikið á flakki er­lendis og sýna úti um allan heim en höfum lítið fengið tæki­færi til að fara á lands­byggðina,“ segir Erna.

Að lokum nefnir Erna sam­starf Ís­lenska dans­flokksins við Tom Wein­berger sem er rísandi stjarna í al­þjóð­lega dans­heiminum og mun frum­sýna nýtt verk með flokknum í lok maí.