Létt og hollt sumarsalat þar sem nýjar ferskjur eru í aðalhlutverki. Salatið er einstaklega ljúffengt og hentar vel eitt og sér eða sem meðlæti.

Þetta frábæra salat er meðal margra frábærra rétta á síðunni jessicagavin.com sem Jessica Gavin, bandarískur matvæla- og matreiðslufræðingur, heldur úti. Jessica gaf okkur leyfi til að birta uppskriftina en nú fást ferskjur í öllum verslunum.

Salatið er litríkt og með æðislegri dressingu sem einnig er gerð úr ferskjum en best er að hafa þær vel þroskaðar. Þess má geta að ferskjur eru mjög C-vítamínríkar.

Jessica notar poppy seeds eða valmúafræ í dressinguna, stundum kölluð birkifræ eins og notuð eru á rúnnstykki en þau gefa hnetukeim. Salatið er með fullt af ávöxtum eins og jarðarberjum og bláberjum ásamt ferskjunum. Þá eru pekanhnetur og mjúkur geitaostur. Hentar einstaklega vel í góðu veðri. Jessica segir að það taki einungis fimmtán mínútur að gera salatið.

Sumarsalat dressing

1 bolli ferskjur, skornar í bita

2 tsk. sítrónusafi, plús rifinn börkur af 1 sítrónu

2 msk. vatn

2 msk. ólífuolía

1 msk. hunang, agave eða hlynsíróp

1 ½ tsk. valmúafræ

Salat

1 poki með blönduðu salati eftir smekk

1 ferskja, skorin í sneiðar

1 bolli jarðarber, skorin til helminga

½ bolli bláber

½ bolli pekanhnetur

2 msk. mjúkur geitaostur

Til að gera dressinguna:

Ferskjur, sítrónusafi, börkur og vatn eru sett í matvinnsluvél. Maukið í um það bil 30 sekúndur. Bætið ólífuolíunni þá við og látið vélina ganga áfram í 30 sekúndur.

Smakkið dressinguna til og bætið við sætuefni ef með þarf. Í lokin eru valmúafræin sett saman við og hrærið áfram í 10 sekúndur.

Setjið salatið á disk og dreifið ferskjum, jarðarberjum, bláberjum, hnetum og geitaosti yfir. Berið fram með ferskjudressingunni. ■

Nánar má skoða uppskriftir frá Jessicu á síðu hennar jessicagavin.com

Nú er rétti tíminn til að borða ferskjur.
Fréttablaðið/Getty