Tónlistarkonan og leiklistarneminn Elín Hall gaf á dögunum út ábreiðu af laginu Stanslaust stuð með Páli Óskari. Í dag eru komin 25 ár síðan lagið kom út, en það virðist alltaf vera jafn vinsælt. Útgáfa Elínar af laginu er lágstemmdari og sveipuð ákveðinni dulúð. Lagið fær fyrir vikið á sig ólíkan en fallegan blæ.

„Hugmyndin kviknaði þegar ég og Reynir Snær gítarleikari vorum að æfa fyrir Airwaves 2019. Ég spilaði lögin af plötunni minni sem þá var ekki komin út. Mig langaði að spila eitt lag sem áhorfendur gætu þekkt vel og kannski sungið með. Þegar við fórum að skoða lög til að gera ábreiðu af þá kom þetta lag nokkuð fljótlega til okkar. Við prófuðum alveg að hægja á einhverjum öðrum lögum en það var eitthvað sem small þegar ég fór að syngja Stanslaust stuð í þessari útgáfu,“ segir Elín.

Palli er allur pakkinn

Hvað var það sem heillaði ykkur við nákvæmlega þetta lag?

„Lagið er náttúrulega í uppáhaldi hjá mjög mörgum, leyfi ég mér að fullyrða. Ég held að langflestir hafi dansað við það. Mér finnst persónulega textinn og takturinn skemmtilegur og einstakur. Það er líka oft eins og textar fái nýtt líf þegar önnur rödd fer með þá eða þegar bakgrunninum og þá kannski forsendunum er breytt eins og í þessu tilfelli. Mig langaði líka bara að taka lag sem fjallar um diskó, stuð og glimmer því ég held ég myndi aldrei geta samið um slíkt sjálf, það var eitthvað spennandi við að tækla það.“

Elín segir það klárt að einhverjar andstæður takist á í texta Páls Óskars og áferðinni á hennar útgáfu.

„Ábreiðan mín er kannski ekki uppfull af stuði en það fer kannski eftir því hvernig stuð er skilgreint. Ég hugsaði þetta frekar sem einhvers konar rafmagns-stuð, það er að segja að loftið er rafmagnað og spennuþrungið. Þá fannst mér sem textinn færi að þjóna annarri tilfinningu, kannski þeirri sem kæmi í einhvers konar tónlistar- og dansalsælu,“ segir hún.

Tónlistarkonan hefur lengi verið mikill aðdáandi Páls Óskars.

„Alveg frá því að ég fékk áritað Silfursafnið hans þegar ég var svona tíu ára. Fyrir mér var Palli allur pakkinn, tónlist og perfomans og alltaf allt tekið alla leið. Það er held ég líka bara þessi þáttur í hans fari með að gera hlutina nákvæmlega eftir sínu innsæi og vera ekki að biðjast afsökunar á því sem talar ennþá til mín í dag.“

Í skýjunum með viðtökurnar

Palli hlustaði á útgáfu Elínar og sagðist mjög ánægður með hana.

„Ég fékk allavega á tilfinninguna að honum fyndist bara gaman að heyra útgáfur annarra af lögunum sínum. Hann gaf útgáfunni grænt ljós en mér fannst mikilvægt að honum fyndist hún í lagi. Ég er eiginlega bara í skýjunum með það.“

Stanslaust stuð kom út tveimur árum áður en Elín fæddist. Það mætti segja að það sé til marks um það hversu tímalaust og vinsælt lagið er, að nú sé hún öllum þessum árum síðar að gera ábreiðu af því.

„Ég held að þetta sé tvímælalaus klassík og það eru ekkert allt of mörg lög sem hafa verið eins langlíf í uppáhaldi hjá þjóðinni. Sérstaklega þar sem textinn hefur sterkar skírskotanir í fortíðina sem kannski ekki allir kveikja á í dag, eins og Kjötsúpuna og Sister Sledge. Það segir því held ég enn meira um gæði og gleði lagsins að það sé ennþá spilað í dag. Ætli meginlína lagsins hafi ekki reynst sannspá, stuð að eilífu.“

Þakklát fyrir litlu hlutina

Elín, sem sló í gegn á sínum tíma í kvikmyndinni Lof mér að falla, stundar nú nám í leiklist við Listaháskóla Íslands.

„Við fáum að stunda námið með einhverjum takmörkunum, grímur og tveggja metra regla og fleira. En þetta hefur vanist fljótt og við erum mjög þakklát fyrir að fá að mæta yfir höfuð, það er ekki þannig í flestum leiklistarháskólum úti í heimi. Það er auðvitað sárt að fá ekki að bjóða neinum að sjá verkefnin okkar en svo lengi sem ég slepp við raddtíma á Zoom í bili þá get ég ekki kvartað,“ segir hún.

Síðasta sumar gaf Elín út plötuna Með öðrum orðum, eða rétt áður en önnur bylgja heimsfaraldursins hófst hér á landi.

„Það hefur auðvitað haft hamlandi áhrif þar sem ég þurfti að aflýsa útgáfutónleikum og fleiru eins og margir. Það hefur líka verið aðeins meiri hausverkur að finna tíma með skólanum þar sem í haust gerðum við í leiklistardeildinni eins konar samning um að gera sem minnst utan skóla og hitta sem fæsta til þess að halda bekkjunum lausum við smit eða sóttkví þegar verið var að reyna að setja upp verk eða sýningar. Ég held samt að það séu svo margir í sama pakka og ég og eina leiðin sé bara að horfa á þetta rask á tónlistarsenunni síðasta árið sem smá hik sem hrekkur svo í gang, vonandi með meiri uppskeru og fögnuði,“ segir Elín.

Lagið er hægt að nálgast á öllum helstum streymisveitum.