Sonur grafarans er ný ljóða­bók eftir Brynjólf Þor­steins­son. „Aðal­karakter bókarinnar er sonur grafarans sem missir for­eldra sína og lendir í miklum drauga­gangi,“ segir Brynjólfur. Hann bætir við að faðir hans sé reyndar grafari fyrir austan en í­trekar að bókin sé skáld­skapur frá upp­hafi til enda.

Ljóða­bókinni er skipt í þrjá hluta. „Fyrsti hluti fjallar um upp­vöxt og æsku­ár sonar grafarans. Mið­hlutinn er undir­lagður af drauga­gangi og þriðji hlutinn er endirinn á þessu öllu saman.“ Að­spurður segir Brynjólfur að hlutir fari ekki vel í þessari drauga­ljóða­bók. „Þannig verða víst bækur að vera stundum.“

Í bókinni er að finna til­vitnanir í Þjóð­sögur Jóns Árna­sonar og Ís­lenska þjóð­hætti Jónasar Jónas­sonar frá Hrafna­gili. „Við eigum mjög ríkan drauga­sagna­arf sem mér fannst mjög gaman að vinna með við skrifin og sótti í.

Eitt ljóð er síðan byggt á al­þýðu­lækninga­kaflanum í Ís­lenskum þjóð­háttum eftir Jónas Jónas­son sem hafði mikil á­hrif á mig því fólk gekk í gegnum ýmis­legt hér áður í veikindum.“

Spurður hvort hann trúi á eða hafi trúað á drauga segir Brynjólfur: „Ég er frekar jarð­bundinn maður og trúi eigin­lega engu. Fyrir nokkrum árum strengdi ég þess heit að fara að trúa meira á drauga en hef svo sem ekki staðið við það heit.“

Sonur grafarans er önnur ljóða­bók Brynjólfs. Fyrri bók hans er Þetta er ekki bíla­stæði sem kom út í fyrra og hlaut afar góðar við­tökur. Hann segir bækurnar tvær ekki líkar. „Sú síðasta saman­stóð af stökum ljóðum, núna langaði mig til að skrifa ljóða­bálk.“