Sonur grafarans er ný ljóðabók eftir Brynjólf Þorsteinsson. „Aðalkarakter bókarinnar er sonur grafarans sem missir foreldra sína og lendir í miklum draugagangi,“ segir Brynjólfur. Hann bætir við að faðir hans sé reyndar grafari fyrir austan en ítrekar að bókin sé skáldskapur frá upphafi til enda.
Ljóðabókinni er skipt í þrjá hluta. „Fyrsti hluti fjallar um uppvöxt og æskuár sonar grafarans. Miðhlutinn er undirlagður af draugagangi og þriðji hlutinn er endirinn á þessu öllu saman.“ Aðspurður segir Brynjólfur að hlutir fari ekki vel í þessari draugaljóðabók. „Þannig verða víst bækur að vera stundum.“
Í bókinni er að finna tilvitnanir í Þjóðsögur Jóns Árnasonar og Íslenska þjóðhætti Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili. „Við eigum mjög ríkan draugasagnaarf sem mér fannst mjög gaman að vinna með við skrifin og sótti í.
Eitt ljóð er síðan byggt á alþýðulækningakaflanum í Íslenskum þjóðháttum eftir Jónas Jónasson sem hafði mikil áhrif á mig því fólk gekk í gegnum ýmislegt hér áður í veikindum.“
Spurður hvort hann trúi á eða hafi trúað á drauga segir Brynjólfur: „Ég er frekar jarðbundinn maður og trúi eiginlega engu. Fyrir nokkrum árum strengdi ég þess heit að fara að trúa meira á drauga en hef svo sem ekki staðið við það heit.“
Sonur grafarans er önnur ljóðabók Brynjólfs. Fyrri bók hans er Þetta er ekki bílastæði sem kom út í fyrra og hlaut afar góðar viðtökur. Hann segir bækurnar tvær ekki líkar. „Sú síðasta samanstóð af stökum ljóðum, núna langaði mig til að skrifa ljóðabálk.“