Jóhanna er fædd og uppalin á Hellum og hefur búið þar alla ævi fyrir utan átta ár þegar hún segist hafa villst til Reykjavíkur til að fara í skóla.

„Ég fór í bæinn og fann mér mann og eignaðist með honum þrjú börn og við fluttum í sveitina 2013. Síðan hef ég verið þar,“ segir hún en í dag býr hún með konunni sinni Katrínu Ívarsdóttur sem á tvö börn úr fyrra sambandi svo börnin á heimilinu eru orðin fimm, ellefu ára og yngri.

„Við fórum bara að búa saman formlega núna um áramótin þó hún hafi verið hér meira og minna síðan 2020. Hún er ekki bóndi, hún kemur úr Kópavogi og hefur aldrei verið í sveit. Þetta er alveg ný upplifun fyrir hana og börnin hennar,“ segir Jóhanna sem er núna heima í einangrun með öll börnin.

„Það er munur fyrir þau að geta verið í einangrun hér þar sem þau geta farið út að leika sér. Sérstaklega þar sem þau eru ekki með nein einkenni. Það hefði verið erfitt að þurfa að halda fimm hressum börnin alveg inni,“ segir hún og hlær.

Á bænum eru 300 kindur á vetrarfóðrum. MYND/AÐSEND

Þorrinn rólegasti tíminn

En víkjum aftur að sveitinni og sveitastörfunum. Jóhanna segir að það sé alltaf nóg að gera í sveitinni en þorrinn sem gekk í garð í dag sé rólegasti tíminn.

„Við erum með sauðfé á bænum en fjölskyldan mín var að vísu með beljur fram til 1982, en ég fæddist eftir það svo ég þekki bara að vera með sauðfé og hesta,“ segir Jóhanna en á búinu eru 300 kindur á vetrarfóðrum.

„Það þarf að vakna snemma og gefa kindunum yfir vetrarmánuðina. Við förum í fjárhúsið tvisvar á dag, fyrst klukkan sex á morgnana og svo aftur seinnipartinn. Núna í lok janúar er maður að byrja að taka hrútana úr en við hleypum til í byrjun desember,“ segir Jóhanna.

Þar sem blaðamaður er algjört borgarbarn þarf hún nánari útskýringu á þessum orðum sem Jóhanna gefur með glöðu geði.

„Að hleypa til er þegar við setjum hrútana í kindurnar. Það er ekki hægt að hafa þau saman allan veturinn því þá væru lömbin að koma á hinum og þessum tímum. Við stillum þetta þannig að lömbin koma á réttum tíma fyrir sláturhúsin, en það er bara visst tímabil sem hægt er að senda í sláturhús,“ útskýrir hún.

„En við sem sagt byrjum að hleypa til í desember og svo í lok janúar og í byrjun febrúar tökum við þá úr og bíðum svo bara eftir að lömbin byrji að koma í apríl. Þess vegna er þorrinn rólegasti tíminn. Þá þarf bara að gefa kindunum tvisvar á dag og við getum svo sinnt ýmsum smáverkum þess á milli,“ segir Jóhanna.

Jóhanna segir að það sé í nógu að snúast í sveitastörfunum allt árið en rólegasti árstíminn er við það að hefjast núna. MYND/AÐSEND

Nóg að gera allt árið

„Það er gott að hafa rólegan tíma á þorranum því þetta er líka tíminn sem það er yfirleitt mesti snjórinn. Það mætti eiginlega kalla þennan tíma sumarfríið okkar því það er mikið að gera allt árið að öðru leyti. Í lok apríl byrjum við að bera á túnin svo við fáum hey. Svo kemur sauðburður sem tekur yfirleitt rúmlega mánuð svo allur maímánuður fer í hann. Í júní eru túnin undirbúin og í júlí og ágúst ertu í heyskap,“ útskýrir Jóhanna.

„Í september smölum við lömbunum heim og setjum í sláturhús og við erum að því enn þá í október. Svo byrjum við að undirbúa haustverkin, sem sagt að ganga frá vélunum. Þegar kemur fram í nóvember ferðu að huga að því að taka kindurnar inn á hús. Þær eru rúnar svo hægt sé að fá pening fyrir ullina og svo koma tilhleypingar og mögulega sæðingar og þá er komið fram í miðjan desember að lágmarki. Svo allt í einu koma jólin, eftir þau ferðu að tína hrútana úr. Eftir það kemur loksins smá frítími ef svo má kalla.“

Kindurnar eru settar inn yfir vetrartímann og Jóhanna fóðrar þær tvisvar á dag. MYND/AÐSEND

Á sama stað frá 1670

Það er alveg greinilegt að það er sjaldan dauð stund í sveitinni og því líklega kærkomið að fá örlitla hvíld á þessum árstíma. Jóhanna segir að engar sérstakar hefðir séu í sveitinni í kringum þorrann nema bara að það er haldið þorrablót.

„Það er eiginlega uppskeruhátíðin okkar eftir alla vinnuna, eiginlega árshátíðin okkar þar sem allir koma saman og hafa gaman því aðra mánuði ertu svolítið bundin af verkefnum þess tíma,“ segir hún.

En í ár er ekkert þorrablót í sveitinni og það var ekki heldur í fyrra.

„Núna er þetta í rauninni bara eins og hver annar árstími. Þorrablótin poppuðu svolítið upp þennan tíma. Ég set ekki mat í súr og borða þorramat yfirleitt ekki nema bara á þorrablótum. Það eru margar af þessum þorrahefðum dottnar upp fyrir,“ segir hún.

„Já og nei,“ svarar Jóhanna spurð um hvort hana hafi alltaf langað til að verða bóndi.

„Ég ætlaði kannski ekki að verða bóndi þegar ég flutti til Reykjavíkur og fór að læra félagsfræði eða þegar ég fór í viðskiptafræði í framhaldi af því,“ segir hún.

„En ég fann það, þegar ég varð ólétt árið 2013, að ég vildi ekki ala börnin mín upp í bænum. Þá togaði sveitin í mig. Það var alveg gaman að búa í bænum og geta skroppið og hitt fólk með litlum fyrirvara og labbað í næstu búð, en það eru 30 kílómetrar í næstu búð hér. En mér líður vel í sveitinni. Við vorum einmitt að hlæja að því að fjölskyldan mín hefur búið hér síðan um 1670, svo ræturnar eru mjög djúpar. Við erum hér og ég sé ekkert eftir því.“