Hamborgarafabrikkan breytti í haust nafni jólaborgarans Rúdólfs í Rúdólfur og vildi þannig sýna Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni sóma og þakka honum fyrir óeigingjarnt starf. Þórólfur smakkaði þó heiðursborgarann sinn ekki fyrr en í síðustu viku þar sem höfuðandstæðingur hans skarst í leikinn.

Rúdólfur í góðum fílíng

„Almannavarnir eru með aðstöðu á Höfðatorgi og planið var alltaf að smakka saman Rúdólf í desember, en fyrir kaldhæðni örlaganna fékk ég COVID og var alveg frá í jólamánuðinum,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson á Hamborgarafabrikkunni.

„Við höfðum því um nóg að ræða þegar við hittumst loksins í „löns“ og það var gaman að leyfa honum að bragða Rúdólf. Hann var að fíla hann, sem var mikill léttir,“ segir Jói og bætir við að hann geti vottað að Þórólfur sé toppmaður með afar þægilega nærveru. Þá spilli ekki fyrir að þeir Þórólfur deili ekki aðeins ástríðu fyrir Bítlunum, þar sem sóttvarnalæknir sé einnig áhugamaður um góða hamborgara.

„Honum fannst þetta skemmtilegt,“ segir Jói og bætir við að hann telji þó alls ekki víst að Þórólfur hefði orðið var við nafnabreytinguna á Rúdólfi ef almannavarnir deildu ekki húsnæði með hamborgarastaðnum.

Pólitíkin af matseðlinum

„Hann er búinn að vera svona fastagestur undanfarna mánuði og við höfum svolítið hlegið að því að við hefðum ekki getað svindlað mikið á þessum takmörkunum þegar við erum með almannavarnir liggur við í mat í hverju hádegi.“

Þótt hverjum sýnist sitt í veitingabransanum ákvað Jói að leggja alla sóttvarnapólitík til hliðar þegar hann tók á móti Þórólfi og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni í jólaborgara í miðjum janúar.

„Við skildum alla pólitík um takmarkanir og sóttvarnaaðgerðir eftir heima og nutum þess að spjalla um daginn, veginn og Bítlana. Þannig að ég var nú aðallega bara að fá mér hamborgara með bítlaaðdáandanum og gaurnum Þórólfi.

Hann veit svo sem alveg hvar við veitingamenn stöndum í þessu öllu saman og auðvitað eru alls konar sjónarmið uppi, en á endanum verður maður að bera virðingu fyrir því að hann er bara að gera sitt besta í mjög krefjandi aðstæðum.“

COVID-þjáningabræður

„Víðir var náttúrulega þarna með okkur og við gátum borið saman sjúkrasögur og farið yfir stöðuna,“ segir Jói, en hann og almannavarnalöggan náðu ekki síður vel saman enda báðir enn að jafna sig eftir að hafa smakkað á COVID-19.

„Við Víðir tengdum ansi vel enda urðum við báðir drulluveikir þótt hann hafi fengið aðeins hressilegri útreið en ég. Ég finn allavegana ekki fyrir þessari heilaþoku sem sumir tala um, en ég tengi við ákveðið úthaldsleysi sem tekur víst svolítinn tíma og maður þarf bara að sýna þolinmæði. En við höfum gaman af því að ræða um alls kyns skringilegheit sem fylgja þessu,“ segir Jói og nefnir sérstaklega óútreiknanlegt bragð- og lyktarskyn.

„Þannig að ég er alveg ómarktækur í vöruþróun allavegana og ekkert hægt að stóla á mig í þeim efnum og ég fæ fagmenn til þess að smakka fyrir mig þessa dagana. Ég bíð spenntur eftir því að fá bragð og lykt aftur. Þetta er mjög verðmætt en maður veit það ekki fyrr en maður er búinn að missa það.“

Stálsleginn sóttvarnalæknir á milli tveggja kóvita sem geta illa treyst bragðlaukum og lyktarskyni. Mynd/Aðsend