Sóla Þorsteinsdóttir hjá hljóð­bóka­risanum Storytel segir hljóðseríur koma sterkar inn í sumar. Um er að ræða efni sem er sérstaklega skrifað fyrir hljóðbókaformið og síðan leiklesið af einum eða fleiri leikurum.

Möguleiki að minnka skjátíma

Þá framleiðir Storytel Sögustund með afa, persónu Arnar Árnasonar sem skemmt hefur Íslendingum kynslóð fram af kynslóð.

„Örn var hjá okkur í morgun að taka upp fleiri Sögustundir,“ segir Sóla. „Hann er farinn að fá komment úti í bæ: Hey, ert þú þarna þessi Afi? Það hefur ekki gerst síðan mín kynslóð var að horfa á afa á Stöð 2,“ segir Sóla og hlær.

„Við erum að gefa þetta út á laugardagsmorgnum, vegna þess að það er þessi klassíski tími barnaefnis í sjónvarpinu og þetta er svona möguleiki fyrir foreldrana til að minnka skjátímann í sumarfríinu.“

Sóla segir barnaefni vera í mikilli sókn á hljóðbókaformi. „Þetta er frábær ferðafélagi í fríið til að hlusta á í bílnum,“ segir hún og bendir á nýja hljóðseríu fyrir yngri hlustendurna sem kemur út á föstudaginn.

Það er Aha, fræðslusería fyrir börn eftir Stjörnu-Sævar Helga og Sigyn Blöndal sem Íslendingar þekkja úr Stundinni okkar. „Fyrsti þátturinn er um kúk,“ segir Sóla, og það er ljóst að höfundum er ekkert mannlegt óviðkomandi.

Örn Árnason var um þrítugt þegar persónan Afi fæddist.

Höfundar fagna nýju formi

Að sögn Sólu hafa krimmar alltaf gert gott mót hjá Storytel og eru langmest-streymda efnið í dag.

„Ljúflesturinn líka,“ bætir hún við. Þá séu hljóðseríur gríðarlega vinsælar. „Höfundar hafa sagt að það sé gaman að geta farið þessa leið. Við sjáum það líka þegar lesarar koma til okkar og byrja að lesa, að þeir þurfa að hugsa þetta allt öðruvísi en þegar þeir eru að lesa þetta í huganum.“

Sóla er sjálf dugleg að hlusta og mælir eindregið með bókinni Söng Akkílesar eftir Madeline Miller. Íslensk þýðing Þórunnar Hjartardóttur er lesin af Hilmari Guðjónssyni.