Í dag kemur út fyrsta lagið af væntanlegri sólóplötu tónlistarmannsins Sigurðar Guðmundssonar, sem oft er kenndur við hljómsveitirnar Hjálma og GÓSS. Lagið heitir Kappróður.

„Þetta er fyrsta sólóplatan mín, sem er algjörlega með mínu eigin efni.“ Hann segir vissulega nokkurn mun á því að vinna að sólóefni og að vinna tónlist með hljómsveit.

„Ég er náttúrulega alls ekki að gera þetta alveg einn. En jú, að vissu leyti, nú ræð ég öllu sjálfur, hvað mér finnst flott og hvað ekki. Það getur samt líka verið smá einmanalegt, sérstaklega þegar maður er kominn á lokametrana. Þá getur verið erfitt að taka ákvarðanir um hvort maður sé í alvörunni að gera rétt. Hvort maður sé að gera gagn eða ógagn,“ segir hann.

Hljóðver Sigurðar er staðsett í Hafnarfirði, en hann segir margt fleira tónlistarfólk með stúdíó í byggingunni sem getur reynst þægilegt þegar hann vill bera efnið undir aðra.

„Það getur verið mjög gott. Þetta er smá svona innanhúss starfsemi hérna hjá okkur. Þótt að ég sé kannski einn að vinna mína tónlist inni í stúdíói, þá er hægt að leita til ýmissa annarra hérna innanhúss til að bera þetta undir aðra,“ segir hann.

Örlítið persónulegri

Sigurður segist hafa upplifað að nú væri orðið tímabært að gefa út sitt eigið efni.

„Svo hafði ástandið sem við viljum ekki nefna orsakað það að maður hefur haft meiri tíma til að dunda sér sjálfur. Það var búinn að hrúgast upp hjá mér lagabunki og ég ákvað bara að koma því loksins saman í einhvern pakka, aðeins enduruppgötva sjálfan mig. Treysta á sjálfan mig til að standa með þessu dóti og sjá svo bara til hvernig fer.“

Hann segist í flestum tilvikum semja tónlist með sig sjálfan í huga, þótt að tónlistin sé svo flutt með hljómsveit.

„Ein hljómsveitin er fyrst og fremst að taka ábreiður,“ segi hann og á þá við hljómsveitina GÓSS. „Hjálmarnir, þá er yfirgnæfandi hluti laganna eftir Steina, Þorstein Einarsson. Þótt ég eigi oft eitthvert brot af þeim. Svo eru aðrir að semja fyrir flest hitt sem ég er að gera. En svo eins og með okkur Siggu, okkar rispa fyrir jólatónleikana og þannig dótarí, flest lögin okkar hafa verið eftir mig. Ég hef alltaf samið þau með það í huga að þau séu yfir okkur, þá reyni ég yfirleitt að semja þau þannig að þau henti fyrir tvo söngvara. Þessi plata sem kemur út núna er örlítið persónulegri. Meira afsprengi af minni lífsreynslu.“

Passlega bjartsýnn

Stefnan var að gefa plötuna út í maí. „Ég var bara að frétta það í gær að það yrði sennilega einhver tveggja vikna töf.“ Í ljósi heimsfaraldursins er erfitt að segja til um hvort Sigurður nái að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi.

„Þegar það má, þá vissulega stefni ég á það. En það er allt í hálfgerðri upplausn núna og maður veit ekkert hvað verður hægt að gera í sumar til dæmis. Mig langaði samt að gefa plötuna út núna frekar en í haust, mér fannst hún meiri sumarplata. Í bjartsýniskasti mínu var ég að vonast til að það myndi verða fílingur í sumar og maður gæti farið af stað og spilað eitthvað. Ég ætla að leyfa mér að vera passlega bjartsýnn.“

Heldur sér við efnið

Margir í skapandi greinum hafa rætt opinberlega um að hafa fyrst trúað því að geta nýtt tímann í heimsfaraldrinum til að vinna í listinni, en þegar á hafi liðið hafi þetta lýjandi ástand farið að setja svip sinn á verkin. Sigurður segist kannast við þetta að einhverju leyti.

„En það snýst meira um hvað ástandið sveiflast mikið. Einn daginn er mikil bjartsýni og maður trúir að þetta sé bara búið, allt á blússandi uppleið. Svo þegar maður áttar sig á því að þetta gerist trekk í trekk, að þetta sé oft bara falsvon, þá fer svolítið vindurinn úr manni. En ég er reyndar bara það mikill áhugamaður um að sinna þessu starfi mínu þannig að ég reyni að gera það samviskusamlega á hverjum degi. Ég reyni bara að halda mér við efnið,“ segir Sigurður.

Lagið Kappróður er hægt að nálgast á öllum helstu streymisveitum.