Alma, ný kvikmynd eftir Kristínu Jóhannesdóttur, var frumsýnd í gær. Snæfríður Ingvarsdóttir er þar í titilhlutverki ungrar konu sem íhugar eftir röð áfalla að fremja morð.

Kristín segir í myndinni örlagasögu Ölmu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morðið á unnusta sínum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár fréttir hún að hinn myrti sé á lífi og á leið til landsins. Hún ákveður þá að drepa hann þar sem hún hafi hvort eð er þegar afplánað dóm fyrir glæpinn.

„Þessi persóna lendir í svo miklu áfalli og maður tekur kannski ekkert alveg rökréttustu ákvarðanirnar í þannig ástandi,“ segir Snæfríður um þessa ákvörðun persónunnar sem hún leikur.

„Hún er búin að lenda í röð áfalla þannig að það verður til svo mikil reiði innan í henni og hún sér þetta kannski sem einu leiðina,“ heldur Snæfríður áfram en telur vart óhætt að fara nánar út í söguþráðinn.

Tilfinningaríkur tími

Ekki þarf heldur að hafa mörg orð um að heitar, kaldar og fyrst og fremst sterkar tilfinningar kraumi í sögunni og Snæfríður segist aðspurð óhjákvæmilega hafa gengið nærri sér þegar hún sökkti sér ofan í persónu Ölmu.

„Já, ég gerði það alveg svona þegar ég hugsa til baka. Vegna þess að ég var þarna næstum því í hverjum ramma í allri myndinni þannig að þetta var mjög tilfinningaþrungið tökutímabil. Maður þurfti að vera svo ótrúlega einbeittur hvern einasta dag og fór bara algerlega inn í þennan heim.“

Snæfríður sýndi strax á barnsaldri að í henni bjö öflug kvikmyndaleikkona í Kaldaljósi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Snæfríður bendir einnig á að Alma er fyrsta kvikmyndaverkefni hennar síðan hún sýndi á barnsaldri eftirminnilegan og aðdáunarverðan leik í Kaldaljósi fyrir sautján árum síðan.

„Þetta er fyrsta myndin mín sem atvinnuleikkona og ég fann hvað ég þurfti rosalega mikið að einbeita mér þegar ég var ein á setti og þurfti að kafa svolítið ofan í þetta.“

Hún nefnir sem dæmi að hún hafi þurft að læra sérstaka rithönd Ölmu sem var lögð fyrir hana og hún skrifaði endalaust upp. Aftur og aftur. „Ég man að þetta var orðið svolítið geðveikislegt þegar ég var búin að þekja alla veggina í herberginu mínu með æfingunum.“ Snæfríður hlær þegar hún rifjar þetta upp en segir að þrátt fyrir smá geggjun hafi þetta gengið vel.

Frönsk hvatning

Auk Snæfríðar eru franska leikkonan Emmanuelle Riva, Snorri Engilbertsson, Kristbjörg Kjeld og Hilmir Snær Guðnason í helstu hlutverkum en Alma varð síðasta mynd Riva sem lést 2017.

„Það var alveg magnað að sjá hana þarna. Hún var náttúrlega orðin rosalega veik og var víst komin með krabbamein þegar hún var að leika í myndinni,“ segir Snæfríður um frönsku leikkonuna sem meðal annars var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna fyrir Amour 2013 og var stjarna myndar Alan Resnais Hiroshima mon amour frá árinu 1959.

„Þetta er fyrsta myndin mín sem atvinnuleikkona og ég fann hvað ég þurfti rosalega mikið að einbeita mér þegar ég var ein á setti og þurfti að kafa svolítið ofan í þetta.“

„Það var svo magnað hvað hún var veikburða á settinu þegar tökur voru ekki í gangi en um leið og kviknaði á tökuvélinni þá bara lifnaði hún öll við,“ segir Snæfríður sem vissi ekki frekar en aðrir af veikindum leikkonunnar.

„Það var alveg magnað að sjá hana leika og ég hreifst af henni þótt ég skildi ekki tungumálið. Það var mér mikil hvatning bara að horfa á hana og ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa þetta með henni.“

Gagnkvæmt traust

Kristín Jóhannesdóttir á að baki kvikmyndir á borð við Á hjara veraldar og Svo á jörðu sem á himni og er enn þekktari fyrir störf sín sem sviðsleikstjóri. Snæfríður segist því ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar henni bauðst hlutverkið í Ölmu.

Snæfríður í titilhlutverki Ölmu í nýjustu mynd Kristínar Jóhannesdóttir.

„Þegar þetta kom upp var þetta stórt tækifæri fyrir mig. Algjörlega. Ég þekkti Kristínu líka aðeins fyrir og þegar ég var bara krakki lék ég í leiklestri hjá henni. Síðan þekkti ég myndirnar hennar og hef líka séð verk eftir hana í leikhúsinu.

Þannig að ég fór bara í prufu og var síðan bara mjög spennt fyrir þessu verkefni. Ég man líka að þegar hún sendi mér handritið og ég las það þá féll ég alveg fyrir því,“ segir Snæfríður.

„Þetta er náttúrlega bara algerlega hennar verk. Hún skrifar handritið, söguna og leikstýrir. Þannig að þetta er einhvern veginn allt hennar hugarheimur og ég náttúrlega bara treysti henni rosalega vel og við náðum rosalega vel saman. Hún treysti mér mjög vel og það er alltaf mjög gott að finna það. Við áttum bara mjög gott samstarf.

Mig langar náttúrlega að fara meira inn í kvikmyndaheiminn og ég held náttúrlega bara ótrauð áfram og er spennt fyrir komandi verkefnum. Ég meina, þetta er bara það sem ég vil gera og það sem ég er búin að læra og það sem ég er búin að stefna að frá því að ég var pínulítil þannig að ég hætti ekkert núna,“ segir leikkonan unga sem kynntist kvikmyndaleik fyrst sem barn.