Krist­mundur Bjarna­son á Sjávar­borg varð hundrað ára þann 10. janúar síðast­liðinn. Af því til­efni gefur Sögu­fé­lag Skag­firðinga út bernsku­minningar hans, Í barns­minni.

Út­gáfu há­tíð verður hald in í Safna hús inu á Sauð­ár króki í dag kl. 16. Krist­mundur dvelur á Dvalar­heimilinu á Sauð­ár­króki og verður ekki við­staddur út­gáfu­hófið. Í bókinni dregur Krist­mundur upp lifandi myndir af upp­vexti sínum. Sr. Tryggvi H. Kvaran, prestur á Mæli­felli, og Anna Gr. Kvaran tóku hann barn­ungan í fóstur og ólu upp með dætrum sínum tveimur, Hjör­dísi og Jónínu.

Krist­mundur skrifar um tog­streituna sem ríkti í sam­skiptum hans við for­eldra sína og rifjar upp upp­á­tæki og ör­laga­sögur. Frá­sögnin varpar ljósi á upp­vöxt ung­menna á þessum tíma og um hundrað myndir prýða bókina. Það er ó­vana­legt að hægt sé að mynd­skreyta bók um þennan tíma svo vel. Margar ljós­myndanna voru teknar af S.L. Tuxen, dönskum vísinda­manni sem dvaldist á Mæli­felli í nokkrum rann­sóknar­ferðum en hann og Krist­mundur urðu vinir.

Sölvi Sveins­son segir Krist­mund skrifa af hlýju í garð þeirra sem ólu hann upp og ljós­myndirnar sýni sveitar­braginn. „Margar ljós­myndanna í bókinni tók Tuxen af því sem honum þótti sér­stakt. Af þessum gömlu bæjum, af fólkinu og vinnu­brögðum þess. Krist­mundur átti þessar myndir og segir í lok bókarinnar frá kynnum sínum af Tuxen,“ segir Sölvi. 

„Krist­mundur veiktist illi­lega þegar hann var ungur og missti veru­lega mikla heyrn. Það háði honum alla tíð. En hann er marg­slungin manneskja sem sagði alltaf það sem honum bjó í brjósti,“ segir Hjalti Páls­son sem kynntist honum þegar hann var ungur sagn­fræði­nemi. „Á loka­ári mínu í sagn­fræði þá kom ég á safnið til að tala við hann. Það barst í tal að ég vissi ekki hvað ég ætlaði að taka til loka­prófs. Krist­mundur var með efni í hand­raðanum sem hann sagðist ekki hafa tíma til að sinna og lét mig hafa það. Lét mig líka fá allar heimildir sem voru til um efnið á safninu. 

Prófessorinn minn þurfti ekki að hafa fyrir því að sinna mér neitt, slapp mjög vel við það. Þessi kynni okkar urðu til þess að honum fannst ég geta dugað til að verða bóka­vörður á safninu. Hann taldi sig bera á­byrgð á mér og lagði strang­lega fyrir mig að ef ég væri að skrifa eitt­hvað þá ætti ég að sýna sér það. Hann tók mig á hné sér í ó­eigin­legri merkingu, benti mér á alls konar orða­klúður og setninga­skipun. En það varð mér til gagns og það var hlýja undir skrápnum,“ segir Hjalti.

Sölvi tekur undir með Hjalta. „Krist­mundur hrósaði ef honum fannst vel gert en var ó­myrkur í máli ef svo var ekki. Ég get tekið undir það sem Hjalti segir, það má segja að hann hafi flengt mann. Maður fékk stílana alla rauða til baka og svo þegar maður fór að bera sig aum­lega þá fann hann það til sem þó var vel gert. En þetta var hollt þeim sem ætlaði sér að gefa eitt­hvað út á prenti. 

Það eru til margar sögur af honum. Hann var trúnaðar­maður lands­prófs­nefndar í ára­tug og leysti kennara af í yfir­setu í lands­prófi. Þegar Krist­mundur leysti af þá fórum við að hvíslast á því hann heyrði ekkert. Hvað heitir Japans­keisari? spurði ég fé­laga minn, hann Snorra Björn, sem sat fyrir aftan mig og svaraði stundar­hátt: 

Hirohito! Allir nem­endur í lands­prófi heyrðu þetta einnig og því voru nem­endur á Sauð­ár­króki ó­venju fróðir um Japans­keisara það árið,“ segir Sölvi frá.