Fljótfær, hvatvís og hávær,“ segir Ásta Laufey þegar hún er beðin um að lýsa sjálfri sér í stuttu máli. Ásta leggur mikla áherslu á heilbrigðan lífsstíl og þá sérstaklega útiveru með vinum og fjölskyldu. Þá gerir hún sér lítið fyrir og skokkar upp Esjuna, helst vikulega og jafnvel nokkrum sinnum í viku, þegar tími gefst. „Við erum nokkrar í vinnunni sem reynum að fara allavega vikulega á Esjuna,“ segir hún og á þar við samstarfskonur sínar úr Borgarholtsskóla.

„Ég hef alltaf verið pínu Esjufrík og það byrjaði þegar ég byrjaði í utanvegahlaupum árið 2004. Það eru margir flottir hlauparar sem vinna með mér og við fórum fyrir nokkrum árum að fara á Esjuna nánast hvernig sem viðraði (innan öryggismarka þó) og allan ársins hring.“ Þá sé ávinningurinn ekki síst fólginn í því að rækta vináttu. „Þetta er auðvitað frábær hreyfing og ekki leiðinlegt með þessar dásamlegu vinkonur sínar með sér.“

Ásta og Þorsteinn ásamt sonum sínum fjórum.

Óhrædd við nýjar áskoranir

Ástu virðist hvergi líða betur en á þeytingi um fjöll og firnindi og er það ekki bundið við Esjubröltið. „Ég lauk Landvættunum í ágúst, hreyfi mig töluvert mikið, hleyp nánast daglega, fer í ræktina og geng með gönguhópnum mínum einu sinni í viku.“ Þá skipti miklu máli að hreyfingin sé ekki einhæf. „Ég held að því fjölbreyttari hreyfing, því betra, bæði upp á að manni leiðist ekki og svo minnkar það svo mikið meiðslahættuna líka,“ útskýrir hún.

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir er fjögurra drengja móðir og leggur mikla áherslu á að rækta samband við fjölskyldu og vini. Fréttablaðið/Ernir

Ásta hikar ekki við að takast á við nýjar áskoranir í heilsurækt. „Ég var að byrja að æfa með hjóladeild Breiðabliks og er svo á byrjendanámskeiði í blaki með HK. Auk þess er ég að þjálfa á grunnnámskeiði með Náttúruhlaupunum og hef gert það síðustu þrjú ár, sem er einstaklega gefandi og skemmtilegt enda þjálfararnir stjarnfræðilega skemmtilegt fólk eins og almennt flestir sem finnst gaman að hreyfa sig úti í náttúrunni.“

Fjölskyldan saman í Bandaríkjunum.

Það eru eflaust einhverjir sem furða sig á þessum afköstum og þrautseigju og spyrja sig hvernig í ósköpunum hún fari að þessu öllu. Ásta hefur ráð undir rifi hverju og segir að tími dags hafi mikið að segja. „Almennt reyni ég að stunda alla mína hreyfingu fyrir vinnu á morgnana. Þá eru minni líkur á að þær falli niður.“

Hún sækir þó ekki einungis í hamagang og útiveru. „Eins og ég er hrifin af allri hreyfingu utandyra þá finnst mér líka æðislegt að fara í tíma í heitum sal af því að þá eru alltaf góðar teygjur og slökun í viðbót við æfingar.“

Ásta ásamt þeim Lilju, Guðbjörgu og Sólrúnu en þær stöllur fara létt með að skokka upp Esjuna, og þá helst nokkrum sinnum í viku.

Þegar hún er spurð hvort hún hafi alltaf verið svona kraftmikil rifjar hún upp skoplegt samtal sem hún átti við góða vinkonu sína. „Ég veit ekki hvort ég er eitthvað öflugri en aðrir en ég man að ein af mínum bestu vinkonum úr MR sagði fyrir nokkrum árum að þegar hún hitti mig fyrst hafi henni fundist ég allt of mikið af því góða, alltof yfirþyrmandi, hávær og æst en að ég hafi vanist vel og hún taki mér bara eins og ég er núna,“ segir Ásta og brosir.

Á fætur fyrir sólarupprás

Dæmigerður dagur hjá Ástu hefst þegar fólk er flest steinsofandi. „Ég vakna milli 4:30 og 5:00, ber út blöð með einum af drengjunum mínum fjórum, fer svo annað hvort að hlaupa eða í einhvers konar líkamsrækt, og svo heim að koma öllum af stað.“ Þrátt fyrir að vera eina konan í sex manna fjölskyldu hefur Ástu tekist að koma örlítið meira jafnvægi á kynjahlutfall heimilisins með dyggri aðstoð úr dýraríkinu. „Ég á tvo hunda, mæðgurnar Heklu og Esju sem dröslast með mér í allar göngur og hlaup.“

Ásta og Þorsteinn ásamt þremur af fjórum sonum sínum.

Eftir morgunverkin tekur vinnan við en Ásta starfar sem aðstoðarskólameistari Borgarholtsskóla auk þess að vera forvarnarfulltrúi. Áður kenndi hún ensku um árabil í sama skóla og var auk þess mannauðsstjóri. Hún segir að það hafi nánast verið tilviljun að hún hafi ákveðið að feta braut kennslunnar. „Það var alveg óvart í upphafi. Ég sótti bæði um kennslufræði og hagnýta fjölmiðlun eftir BA í ensku og fékk fyrst svar við kennslufræðinni svo ég fór í það.“

Kennaranámið lærdómsríkt

Þar hafi hún orðið fyrir ákveðinni hugljómun og segir námið hafa verið bæði áhugavert og lærdómsríkt. „Þetta varð síðan skemmtilegasta nám sem ég hafði farið í og ég lærði ótrúlega margt þar, margt sem var svo hægt að heimfæra beint á mannauðsstjórnunina þegar ég lærði hana seinna. Ég hélt að það væri í raun ekki hægt að kenna manni að kenna og þetta væri í raun eitthvað innra með manni. En þar skjátlaðist mér heldur betur.“

Ásta segir kennarastarfið spanna allan skalann. „Þetta er besta starf í heimi og erfiðasta starf í heimi. Ekkert starf annað hefur verið þess eðlis að eitt kvöld komi ég heim sem Pelle sigurvegari og það næsta sem mesti lúser í heimi.“

Fjölskyldan saman á góðri stundu.

Þakklæti á erfiðum stundum

Líkt og í kennslunni skiptast einnig á skin og skúrir í lífinu sjálfu. Þrátt fyrir óbilandi bjartsýnina sem er svo einkennandi fyrir Ástu segir hún að haustið fyrir átta árum hafi tekið á. „Haustið 2011 var pínu krefjandi, fáeinum vikum eftir að við eignuðumst yngsta son okkar dó pabbi minn og 6 vikum eftir það dó mamma,“ segir Ásta. Sjaldan er ein (eða eins og í þessu tilfelli tvær) báran stök. „Fjórum dögum eftir andlát hennar þríbrotnaði ég á ökkla sem var áhugaverð lífsreynsla með tveggja mánaða barn.“ Ásta býr þó yfir einstökum hæfileika til þess að sjá björtu hliðarnar, þó að á móti blási. „Það sem stóð samt upp úr eftir þetta haust var þakklæti yfir öllu góða fólkinu sem við erum umkringd.“

Ásta Laufey og eiginmaður hennar, Þorsteinn Hallgrímsson, njóta þess að rækta saman bæði líkama og sál.

Það þarf varla að fjölyrða um það hversu þakklát Ásta er fyrir fólkið í lífi sínu og segir hún samverustundir með fjölskyldunni vera sitt helsta áhugamál. „Ég elska að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni minni og vil helst eyða flestum frístundum með þeim. Við fórum til dæmis í 6 vikna road trip frá Boston til San Fransisco saman í fyrra og það var alveg stórkostlegt.“

Framtíðin er björt

Þá eru það ekki bara fjölskyldan og vinirnir sem Ásta er þakklát fyrir en það eru fáir sem búa yfir jafn viðamikilli reynslu af því að starfa með unga fólkinu eins og hún. Ásta segir framtíðina bjarta. „Með hverju árinu held ég að krakkarnir verði duglegri, skipulagðari, frjórri og flottari. Ungt fólk í dag er geggjað flott, ótrúlega hugsandi og frábært. Ég hef unnið að forvörnum í skólanum í áraraðir og mér finnst nemendur aldrei hafa verið heilbrigðari og heilsteyptari en þeir eru í dag.“

Þegar Ásta er spurð hvert sé besta ráðið sem hún hefur fengið segist hún ekki muna eftir neinu einu en hún hafi þó fengið mörg góð í gegnum tíðina. „Eitt var að mamma sagði mér einu sinni að muna að lífið væri ekki bara hvítt og svart og það veit maður núna, annað var ráð sem ég og maðurinn minn fengum í brúðkaupinu okkar frá ömmu, að lífið væri ekki tóm sætsúpa og að mikilvægt væri að fara sátt að sofa. Þetta eru allt saman mjög góð ráð. Svo er það bara að muna að hræra ekki deigið í vatnsdeigsbollurnar í hrærivél,“ segir Ásta glettin.