Sænska Idol-stjarnan Chris Kläfford grætti salinn í banda­ríska raun­veru­leika­þættinum America's Got Talent nú á dögunum með mögnuðum flutning á laginu Imagine eftir John Lennon. Má með sanni segja að kappinn sé orðinn al­heims­stjarna fyrir vikið en kappinn þakkaði fyrir sig á Twitter.

„Ég get ekki þakkað ykkur nóg ❤,“ skrifar kappinn á sam­fé­lags­miðilinn og lætur hjarta­merki fylgja en mynd­band af flutningi hans hefur fengið meira en átta milljón á­horf þegar þetta er skrifað. Kläfford sigraði sænsku stjörnu­leitina árið 2017 og er því lík­legast vanur at­hyglinni en ef til vill ekki af þessari stærðar­gráðu.

Ó­hætt er að full­yrða að kappinn hafi slegið í gegn hjá dómurunum. „Það skiptir mig öllu máli að gera pabba minn stoltann. Og þetta er fyrsta stóra skrefið í átt að draumnum,“ segir Kläfford.

Að loknum flutning hans var salurinn eins og áður hefur komið fram í tárum og stóðu allir fjórir dómarar upp úr sætum sínum auk salsins og klappaði mannskarinn fyrir þessum ó­trú­lega flutning. „Ég elska fólk sem getur endur­túlkað lög og þú gerðir eitt­hvað mjög sér­stakt þarna,“ segir hinn al­ræmdi Simon Cowell meðal annars.