Kannski ekki furða þar sem hana prýða myndir af Ora grænum baunum og Ora-rauðkáli eins og á hinum fornfrægu niðursuðudósum frá Ora.Rúmlega tvö hundruð manns hafa brugðist við Twitter-færslum um bjórinn sem, ásamt umbúðunum, hlýtur að mega teljast sá umtalaðasti á landinu.

„Ég verð að viðurkenna að við höfum ekki oft upplifað svona svakalega athygli,“ segir Valgeir og er tilbúinn að fallast á að hér sé fram kominn bjór sem allir tengi við án þess að umbúðirnar minni sérstaklega á jólin fyrir utan kannski tenginguna við niðursoðnar afurðir Ora.

Hann segir það hafa verið gríðarlega áskorun að brugga bjór með hráefnunum sem umbúðirnar vísa til og telur næsta víst að Ora hafi ekki hlotið aðra eins athygli lengi. „Þetta væri fullgrófur hönnunarstuldur annars,“ segir Valgeir og hlær þegar hann er spurður hvort uppátækið sé í sátt við stjórnendur Ora.

Valgeir segir hráefnin spila vel með þeim hefðbundnari í bjórnum og áréttar að þetta sé ekki eins og að drekka grænar baunir. Ora-hráefnin myndi engu að síður mikilvægan grunn en bragðið sé ekki ríkjandi þótt rauðkálið hafi talsverð áhrif á litinn.

Aðspurður að því hjá RVK Brugghús sé byrjað að leggja á ráðin um að framleiða meira vegna áhugans, bendir Valgeir á að brugghúsið sé lítið og með takmarkaða framleiðslugetu. „En þetta er bara geggjað og við höfum gaman af þessu,“ segir Valgeir. Hann fellst á það hlæjandi að líklega muni fólk þurfa að skipuleggja ferð í ríkið til að fá örugglega sína dós.

Bjórinn verður afhjúpaður hjá RVK Brugghús á Snorrabraut næsta fimmtudag og Ora verður á staðnum og nýtir tækifærið til að kynna jólasíldina sína. „Og kokkurinn okkar ætlar að leika sér með þetta.“