Face­book-síðan Matar­tips, sem nýtur mikilla vinsælda hér á landi, setti ný­verið af stað gjafa­leik í sam­starfi við veitinga­staðinn Hipstur.

Skömmu síðar voru ó­prúttnir aðilar búnir að gera Face­book-síðu sem líkist Matar­tips síðunni í þeim til­gangi að blekkja fólk um að það hafi unnið í leiknum. Yfir 41 þúsund manns fylgja matartips á Facebook og því ómögulegt að vita hversu margir fengu skilaboð frá svikahröppunum.

Hin falsaða síða biður fólk um að smella á hlekk og fylgja leið­beiningum „til að krefjast verð­launa!!!“ og bíða í „nokkrar mínútur til að stað­festa kóða fyrir tölvu­póst“

„Við höfum stöðvað gjafa­leikinn og tekið hann út til þess að reyna að fyrir­byggja að ein­hver lendi í þessum aðilum“ segir einn um­sjónar­aðili Matar­tips á Face­book í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að mikil þátt­taka hafi verið í leiknum og vonast til þess að enginn hafi lent í klóm svindlarana. Hann hvetur jafn­framt fólk til þess að til­kynna fölsuðu síðuna til Face­book.

Hægt er að tilkynna fölsuðu síðuna hér.