Fjölmiðladrottningin Oprah Winfrey mælir með bók eftir íslenskan höfund.

Kvika eftir Þóru Hjörleifsdóttur, eða Magma eins og hún heitir í enskri þýðingu Meg Matich, situr í þriðja sæti á lista yfir bestu þýddu bækurnar til að taka með sér í ferðalagið. Listinn birtist í fyrradag á vefsíðunni Oprah Daily.

Bókaklúbbur Opruh Winfrey er sá fjölmennasti í heimi og hefur gífurleg áhrif á bókasölu í Bandaríkjunum. Þegar bækur lenda á lista á vef Opruh Winfrey eiga þær til að seljast í gámatali og er þetta því mikill heiður fyrir Þóru.

Fréttablaðið náði tali af Þóru í morgun en hún var að sjálfsögðu í skýjunum yfir meðmælunum. „Ég er ótrúlega stolt og glöð,“ sagði Þóra og hló. „Satt að segja er ég í hálfgerðu sjokki.“

Kvika er fyrsta skáldsaga Þóru en hún vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2019. Kolbrún Bergþórsdóttir, gagnrýnandi á Fréttablaðinu, skrifaði um bókina:

„Kvika er áhrifamikil og sterk bók, tungutakið þjált og eðlilegt í fyrstu persónu frásögn sem gerir að verkum að við komumst nær sögupersónunni og sjáum hvernig hún minnkar stöðugt undir þrýstingnum sem „ástin“ leggur á hana. Og það sker í hjartað hvernig hún, og allt of margir, skilgreina það sem hún upplifir sem ást.“

Bókin kom út í danskri þýðingu í desember í fyrra. Ljóðskáldið og þýðandinn Meg Matich þýddi svo bókina yfir á ensku og kom hún út bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi síðastliðinn júlí.

„Meg á risastórt hrós skilið fyrir þýðinguna,“ bætir Þóra við. Til stendur að þýða bókina yfir á sænsku, rússnesku, úkraínsku og ítölsku.

Þóra hefur einnig tekið þátt í að skrifa og gefa út ljóðabækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd (2017) og Ég er fagnaðarsöngur (2018) með hópi skálda sem kalla sig Svikaskáld. Sami hópur gaf nýlega út kollektíva skáldsögu sem ber nafnið Olía.

Aðdáendur rithöfundarins þurfa ekki að örvænta en Þóra svarar játandi þegar blaðamaður spyr hvort hún sé að vinna í nýrri skáldsögu.