Á Ítalíu hefur ekki verið mikið rætt um heimilisofbeldi eða annars konar ofbeldi gegn konum. Þær hafa ekki þorað að stíga fram til að segja frá, enda hafa slík mál ekki átt greiða leið í gegnum réttarkerfið. Julia Charlotte var hins vegar strax ákveðin í að kæra manninn og segja frá árásinni. Eitt stærsta dagblaðið í Mílanó, la Repubblica, birti á dögunum viðtal við Juliu og tvær aðrar konur sem kærðu sama árásarmann í kjölfar umræðu Juliu. Sú umfjöllun hefur orðið til þess að ítölsk sjónvarpsstöð hefur boðið Juliu í viðtal í þætti þar sem rætt verður um ofbeldi gegn konum. Julia segir það ákveðinn sigur að geta opnað fyrir þessa umræðu.

Heillandi og vel metinn

„Hann var ofbeldismaður sem faldi sig á bak við heillandi útlit og vissi að stelpur kjafta ekki frá. Ég var fyrst of hrædd til að segja frá, fór til Íslands í heimsókn til móður minnar til að komast í burtu,“ segir Julia, en móðir hennar er Elsa Waage óperusöngkona sem lengi var búsett á Ítalíu þar sem hún giftist föður Juliu. Hann lést þegar Julia var þrettán ára en þá flutti Elsa heim. Julia vildi ganga menntaveginn á Ítalíu og hefur nær alla sína ævi búið þar í landi.

Julia Charlotte er hálfíslensk fyrirsæta og fjölmiðlafræðingur og stendur fast á sínum málum þegar á móti blæs.

Julia segir að það hafi ekki verið hægt að sjá það á kærastanum að hann væri ofbeldismaður. „Hann kom mjög vel fyrir, átti mjög góða fjölskyldu sem var í miklum metum og vel efnuð. Maður getur ekki séð utan á mönnum hvort þeir séu ofbeldishneigðir. Við sátum heima eitt kvöldið að horfa á bíómynd í sjónvarpinu og vorum að fagna því að ég hafði náð lokaprófi þegar hann brjálaðist, henti sjónvarpinu um koll, tölvan mín fauk í átt að glugganum og síminn sömuleiðis. Þá réðst hann á mig, barði mig auk þess að slá höfðinu í vegg þannig að ég missti meðvitund. Hann braut allt og bramlaði á heimili mínu, en við vorum ekki farin að búa saman. Það var síðan nágranni sem fann mig mikið slasaða fyrir utan húsið og kallaði á lögreglu og sjúkrabíl. Ég veit ekki enn hver það var sem fann mig þarna,“ segir hún.

Í ökklabandi

„Ég kærði árásina og hann var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi. Hann þurfti þó ekki að sitja nema hluta af því í fangelsi og er núna með ökklaband heima. Þegar ég kom til Íslands eftir árásina hringdi kona í mig sem hafði heyrt um kæruna og sagði mér að þessi maður hefði beitt sig ofbeldi líka. Ég benti henni á lögfræðinginn minn sem tók hennar mál einnig. Síðan bættist ein önnur kona við sem hafði sömu sögu að segja. Eftir að viðtalið birtist við okkur í la Repubblica hafa tvær í viðbót stigið fram. Við erum því orðin nokkuð mörg fórnarlömb þessa manns og fleiri kærur á hann eru í farvatninu. Það hjálpar mjög mikið fyrir hraða í dómskerfinu að við erum þetta margar,“ segir Julia, sem hefur ekki fengið greiddar þær bætur sem honum var gert að greiða. „Það er annað mál sem er að fara í gang,“ segir hún.

Hér er Julia í auglýsingu fyrir Coca-Cola í Mílanó. Hún hefur starfað lengi sem fyrirsæta og fær mörg góð verkefni.

Umræða í stóru leikhúsi

Julia var fengin til þess að koma fram í stóru leikhúsi í Róm í september þar sem sett var á svið leikverk þar sem sjö konur frá mismunandi löndum komu fram og ræddu um heimilisofbeldi. Á eftir var flutt verkið The Rape of Lucrece eftir Shakespeare. „Shakespeare skrifaði verkið þegar hann var sjálfur í sóttkví en það er byggt á sögu konu sem var nauðgað og sagði frá því. Það var mjög góð reynsla fyrir mig að taka þátt í þessu verki og gerði mér gott. Í framhaldinu langar mig að leika meira og hef farið í nokkrar prufur,“ segir hún.

Allt þetta hefur vakið athygli á máli hennar og orðið til þess að fleiri konur stíga fram og segja frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. „Mér fannst mjög mikilvægt að kæra málið því annars hefðu miklu fleiri konur getað orðið fyrir ofbeldi af hans hendi. Hann var mikill sjarmur og það var ekki nokkur leið að sjá hvern mann hann hafði að geyma. Ég er mjög ánægð með að viðtalið vakti athygli og kom í veg fyrir að fleiri konur lendi í þessum manni, en hann var nafngreindur í blaðinu,“ upplýsir Julia, en hún var ekki nafngreind.

„MeToo-umræðan sem var logandi um allan heim náði aldrei almennilega til Ítalíu. Hún byrjaði aðeins í lok síðasta árs, en með viðtali eins og þessu í la Repubblica opnast meira á þessa umræðu sem er mjög mikilvægt. Umræðan má vera svo miklu meiri og sterkari á Ítalíu. Nýlega kom upp nauðgunarmál þar sem ríkur og frægur einstaklingur var gerandi. Athyglin og umræðan um það mál hefði aldrei orðið svona mikil fyrir tveimur árum. Lögum var breytt í lok árs 2019 sem gerir konum frekar kleift að kæra ofbeldi, en á því ári voru 111 konur drepnar á heimilum sínum,“ segir Julia.

COVID gerði allt erfiðara

Julia segist koma í heimsókn til Íslands á hverju ári en rætur hennar liggi þó á Ítalíu. Hún starfar sem fyrirsæta en vinnur þar að auki á auglýsingastofu. COVID hefur breytt miklu í ítölsku samfélagi, sérstaklega í norðurhlutanum þar sem faraldurinn breiddist hratt út í upphafi bylgjunnar. Julia fékk COVID-19 án þess að verða vör við það. „Ég þurfti að fara í smá aðgerð og það var tekin blóðprufa sem leiddi í ljós að ég hafði fengið veiruna án þess að fá nokkur einkenni. Flestallir vina minna hafa fengið COVID. Við vorum lengi með allt lokað en nú er smátt og smátt verið að opna aftur. Við megum þó ekki fara út fyrir borgarmörk. Þetta er búið að vera mjög erfitt síðasta ár fyrir alla og það er rétt verið að byrja að bólusetja elsta fólkið og heilbrigðisstarfsmenn. Ísland er langt á undan Ítölum,“ segir Julia, sem ætlar að halda áfram að ræða opinberlega um ofbeldi gegn konum. „Ef ég get hjálpað eitthvað við að opna umræðuna þá geri ég það. Ég gæti meira að segja hugsað mér að stofna stuðningshóp,“ segir hún.

Julia á sviði í Róm í verki eftir sjálfan Shakespeare, The Rape of Lurece.