„Þetta byrjaði í fyrra þegar sonur minn fæddist í lok maí,“ segir pólski ljós­myndarinn Katarzyna Deptula sem hyggst opna nýtt ung­barna­kaffi­hús á næstu mánuðum.

„Ég komst að því að það var bók­staf­lega enginn staður til að fara á. Þegar hann var orðinn nógu stór til að fara út og hitta önnur börn var þegar orðið dimmt og veðrið ekki lengur eins gott,“ segir hún um til­komu hug­myndarinnar að stofna ung­barna­kaffi­hús fyrir börn að þriggja ára aldri og for­eldra þeirra.

Vildi ekki trufla á bóka­safninu

„Ég man að ég fór með vin­konu minni og ungri dóttur hennar á Borgar­bóka­safnið,“ segir hún. „Okkur leið svo­lítið illa með að vera með svona lítil börn, sem gátu gargað og truflað fólkið sem var þar að lesa fyrir börnin sín.“

Katarzyna nefnir annað til­felli þar sem hana langaði að fara á veitinga­hús og borða há­degis­mat með barninu sínu. „En fólk reynir að vinna þar og eyða tíma með vinum sínum, en ekki endi­lega hafa barn organdi eða hlaupandi um,“ segir hún.

Hún segir engan sam­bæri­legan stað í Reykja­vík. „Það er auð­vitað Kaffi Dalur, en það er kannski meira fyrir fólk sem dvelur á hostel­inu og þar er heldur ekki mikið af leik­föngum,“ segir hún og segist því ekki telja það með í flóru ung­barna­kaffi­húsa á höfuð­borgar­svæðinu.

Telur þörfina mikla

Því fór svo að Katarzyna á­kvað að opna sinn eiginn stað. Hún segir að for­eldrar ungra barna sem hún hafi rætt við, séu á einu máli um þörfina á slíkri þjónustu. „Þetta var þannig ekki að­eins mín vegna heldur þurfa fleiri á þessu að halda,“ segir hún.

Katarzyna kemur frá náttúru­perlunni Mazury í Pól­landi, sem einnig er kallað „Land hinna þúsund vatna“, eða „Lungu Pól­lands“. Hún hefur starfað sem ljós­myndari lengst af og hefur búið hér á landi með eigin­manni sínum síðast­liðin fimm ár. Maðurinn hennar er bíl­stjóri og fyrst um sinn bjuggu hjónin á Vík í Mýr­dal, áður en þau fluttu til Reykja­víkur í leit að fleiri at­vinnu­tæki­færum.

„Ég vona að ég fái eitt­hvert fjár­magn og styrki, en ég ætla ekki að treysta á það“

Fjár­magn úr eigin vasa

„Við maðurinn minn settum okkar eigið spari­fé í þetta, en svo erum við líka á Karolina Fund. Því meira stofn­fé sem við höfum því flottara getur þetta orðið. Ég vona að ég fái eitt­hvert fjár­magn og styrki, en ég ætla ekki að treysta á það,“ út­skýrir Katarzyna.

„Maður þarf að bíða eftir styrkjunum og getur ekki endi­lega treyst á að þeir komi. Svo er það eins með Karolina Fund, það væri æðis­legt ef allir myndu leggja inn þúsund­kall. Það væri það frá­bær hjálp,“ segir hún en bætir við að hún reikni ekki með því. „Við byggjum allar okkar á­ætlanir á okkar eigin fé.“

Katarzyna reiknar með að hús­næði undir nýja ung­barna­kaffi­húsið verði í höfn á næstu dögum. „Við vonumst til að opna á þessu ári. Ég er þegar búin að panta leik­föng frá Þýska­landi sem verða til­búin í lok októ­ber.“

Hún segir að­gengi mikil­vægt og hún stefni á að hafa staðinn á jarð­hæð og með garði. „Það er mikil­vægt fyrir fólk með kerrur sem kemur með smá­börn,“ segir hún.

Sam­vera og holl fæða

Katarzyna segir ný­bakaða for­eldra eiga á hættu að verða ein­mana, þar sem þeir hafi ekki staði til að hitta aðra for­eldra. „Þetta er ekki bara vanda­mál meðal inn­flytj­enda heldur glíma ís­lenskar mömmur við þetta líka. Það þekkja ekki allir aðra unga for­eldra, og margir þurfa nýtt sam­fé­lag,“ segir hún.

Katarzyna segist leggja mikla á­herslu á að bjóða upp á holla fæðu fyrir börnin. „Það er eitt­hvað sem mér finnst vanta og ég vil sinna. Þegar maður fer eitt­hvert þar sem er barna­mat­seðill, er það yfir­leitt bara franskar eða kjúk­linganaggar.“ Þetta finnst Katarzynu ekki til fyrir­myndar.

„Okkar mat­seðill er mjög ein­faldur en þar verður í boði chia-búðingur fyrir börnin, grautar úr græn­meti og á­vöxtum. Við verðum með kökur fyrir for­eldra en múffur fyrir börnin, sem fram­leiddar eru án við­bætts sykurs og salts. Svo verður einnig hægt að taka með sér. Við erum líka mjög um­hverfis­þenkjandi.“

Þá stefnir hún á að bjóða upp á lista­smiðjur fyrir börn með tíð og tíma. „Og svo verðum við auð­vitað með besta súkku­laðið í bænum.“