Gísli Rafn Ólafs­son, þing­maður Pírata, er gestur í nýjasta þætti hlað­varps að­gerða­hópsins Öfga, Út í öfga, en þar ræðir hann úr­bætur á réttar­kerfinu og opnar sig um sína eigin reynslu sem að­standandi þolanda en dóttur hans var nauðgað þegar hún var að­eins 14 ára gömul.

Gísli segir að það séu tólf ár síðan dóttir hans greindi honum frá því að henni hefði verið nauðgað af starfs­manni af veitinga­stað sem þau sátu inni á. Hann segir frá því í við­talinu að dóttir hans hafi hlaupið grátandi út af veitinga­staðnum og hann og kona hans á eftir honum.

„Við vorum komin niður á lög­reglu­stöð um klukku­tíma seinna en það tók fimm ár fyrir málið hennar að fara alla leið fyrir dóm­stóla. Og hún var heppin, hún náði að fá sak­fellingu,“ segir Gísli og að það sé vitað að sami maður nauðgaði í það minnsta níu öðrum stúlkum undir aldri.

Gísli hefur áður opnað sig um mál dóttur sinnar en í að­sendri grein í Frétta­blaðinu í desember sagði hann frá því á sama tíma og hann mælti með þings­á­lyktunar­til­lögu um ýmsar réttar­bætur fyrir þol­endur. Greinina má lesa hér að neðan.

Tvisvar í gegnum réttarkerfið

Gísli segir frá því að mál dóttur hans hafi í raun farið tvisvar í gegnum réttar­kerfið og að það hafi ekki komist á al­menni­legt skrið fyrr en að dóttir hans opnaði sig um málið í fjöl­miðlum eftir að hafa tekið þátt í Druslu­göngunni.

„Ég held að allir for­eldrar sem upp­lifa svona, að sjálf­sögðu hefur það á­hrif. Það hefur líka þau á­hrif að þegar ég tala um þessi mál á Al­þingi þá brestur röddin mjög oft. Það er bara vegna þess hve erfitt það er að takast á við svona hluti, vitandi það að hennar saga er ekkert ein­stök, því miður eru allt of, allt of mörg svona dæmi,“ segir Gísli í við­talinu en þar segir hann að mál dóttur hans og önnur mál hafi haft þau á­hrif að hann hefur í starfi sínu sem þing­maður lagt sér­staka á­herslu á að vekja at­hygli á þeim.

Hér að neðan má svo hlusta á þátt Öfga í heild sinni og viðtalið við Gísla.