Elísabet Bretlandsdrottning hefur í fyrsta sinn tjáð sig opinberlega um fráfall Filippusar, eiginmanns hennar, sem lést í apríl 99 ára gamall. Breska götublaðið The Sun greinir frá.

Elísabet var við setningarathöfn í skoska þinginu á laugardag. Þar rifjaði hin 95 ára gamla drottning tíma síns með Filippusi í Skotlandi með hlýju frammi fyrir skoskum þingmönnum.

„Ég hef rætt um djúpa og einlæga væntumþykju mína í garð þessa lands og um þær gleðilegu minningar sem ég og Filippus sköpuðum hér,“ sagði drottningin við þingmennina.

„Það er oft sagt að það sé fólkið sem skapi staði og það eru fáir staðir þar sem það á jafn vel við og í Skotlandi, eins og við höfum séð undanfarin ár.“

Konunglegu hjónin eyddu gjarnan öllum sínum síðsumrum í Skotlandi. Síðast dvöldu þau í Balmore kastala í skosku sveitinni í ágúst 2020.