Veitingamaðurinn Jón Bjarni Steinsson, stundum kenndur við Dillon, opnaði nýlega hverfisbar í Urriðaholti í Garðabæ, ekki síst til þess að hann og konan hans gætu brugðið undir sig betri fætinum og farið út að borða án þess að þurfa að taka leigubíl. Fyrsta vikan bendir til þess að fleiri en hann hafi beðið eftir þessum möguleika í hverfinu.

Jón Bjarni Steinsson, sem hefur verið atkvæðamikill í veitingarekstri í miðbænum þar sem hann rekur Dillon og Pablo Discobar, tók sig til ásamt öðrum og opnaði 212 Bar & Bistro í Urriðaholti í Garðabæ fyrir viku síðan.

„Þetta er sprottið af sjálfsbjargarviðleitni og er mín tilraun til að komast úr miðbæ Reykjavíkur,“ segir Jón og bætir hlæjandi við að hann sé orðinn fertugur.

„Við hjónin vildum redda okkur hverfisbar og veitingastað til að geta sótt án þess að þurfa að fara í leigubíl, með von um að aðrir í hverfinu njóti líka góðs af,“ segir Jón Bjarni og lætur fljóta með að hann gæti ekki verið ánægðari með móttökurnar.

Skutlað fram fyrir röð

Jón Bjarni segir þá hugmynd hafa komið upp í tengslum við nýja staðinn að bjóðast til að skutla viðskiptavinum í bæinn eftir kvöldstund á 212 Bar & Bistro.

„Þetta er enn í startholunum,“ segir Jón Bjarni með fyrirvara um að varla sé grundvöllur fyrir skutlinu fyrr en opnunartími skemmtistaða verði rýmkaður frekar, en hann hefur einmitt haft sig talsvert í frammi í andófi veitingamanna gegn ströngum samkomutakmörkunum.

„En þegar ég fær góðar hugmyndir eru allar líkur á að ég framkvæmi þær,“ segir hann léttur.

„Við viljum bjóða viðskiptavinum okkar upp á þann möguleika að fá sér góðan kvöldverð án þess að þurfa að spá í að borga leigubíl í bæinn, og sleppa einnig við að bíða í röð,“ segir hann og sér fyrir sér að þeim sem þiggja skutlið verði hleypt fram fyrir röð á Pablo.

Engin blómkálsfroða

„Pælingin er sú að vera staður fyrir fólkið í hverfinu, með fjölbreyttan matseðil og nýjungar sem eiga við alla, og hafa gaman,“ segir Jón Bjarni og bendir á að matseðillinn nái frá léttum réttum og vegan yfir í steikur og barnamatseðil.

„Við erum ekkert að flækja hlutina með einhverri blómkálsfroðu og þess háttar, heldur ættu allir að geta komið og fengið sér gott að borða úr góðu hráefni.“

Jón Bjarni segir ýmislegt annað í pípunum í Garðabænum. „Við ætlum ekki að vera sportbar en erum með skjá sem er hægt að horfa á boltann á nokkrum borðum án þess að trufla þá sem vilja sitja í rólegheitum. Að sama skapi erum við með skjávarpa til að geta verið með stærri viðburði líkt og Eurovision-kvöld og pöbbkviss.

Viðtökurnar hafa verið afar góðar og það var þétt setið bæði á föstudags- og laugardagskvöld,“ segir Jón, sem hefur ekki yfir miklu að kvarta þar sem þessi helgi líti einnig vel út.

Þá spilli ekki fyrir að möguleikinn á góðri partístemningu sé einnig fyrir hendi þar sem hann sé með leyfi til þess að hafa opið til klukkan þrjú. „Við erum með ráðstafanir í takt við það svo við séum ekki að ónáða nágrannana, bæði með hljóðeinangrandi gluggatjöldum, gólfi og góðu hljóðkerfi.“