Tískupallarnir fyrir vor- og sumartískuna 2021 iðuðu af lífi, djörfum sniðum og björtum litum og eitt af því sem mörgum þótti sérstaklega áberandi var bleiki liturinn.

Það er ekki bara einn bleikur litatónn sem mun tröllríða öllu í sumar, heldur heill regnbogi af bleikum litum og tónum. Vatnsmelónur, eyrarrósableikur, magenta, rósbleikur, ferskjubleikur, ljósbleikur, skærbleikur, rústbleikur og svo framvegis. Allt bleikt er leyfilegt í sumar.

Boss er með puttann á púlsinum í þessum albleika klæðnaði sem fyrirsætan klæddist á tískupallinum í Mílanó í fyrra. Fréttablaðið/Getty.

Þrátt fyrir að margir telji bleika litinn bera með sér kvenlegt yfirbragð þá mega öll kyn að sjálfsögðu skarta þessum fallega, bjarta, æsandi eða róandi lit, enda er til bleikur litatónn fyrir hvern einasta húðlit, kyn eða persónuleika. Ein frægasta setning Íslendingasagnanna kemur enda úr munni Njáls Þorgeirssonar á Bergþórshvoli sem mælti: „Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi,“ sem sýnir að karlmenni geta vel heillast af bleika litnum líkt og aðrir.

Bleikt á bleikt. Blumarine fer hér alla leið í ljósbleikum og rómantískum stuttum kjól, fjaðurham og fuchsia bleikum fylgihlut.

Fyrir þau sem vilja dýfa stórutánni í Bleikahafið þá er alltaf hægt að næla sér í bleika fylgihluti líkt og ljósbleiku hliðartöskuna frá Max Mara, skarta ferskjubleikum skartgrip, setja bindishnút í rósbleikt bindi eða grafa upp skærbleika varalitinn sem hefur legið á botni snyrtivörutöskunnar síðan faraldurinn hófst og bera hann á sólarþyrstar varirnar.

Tískupallarnir í París og Balmain endurspegluðu einnig ást mannskynsins alls á bleika litnum.
Dior er hér með dásamlegan gegnsæjan tvítóna bleikan kjól á tískuvikunni í París. Fréttablaðið/Getty.
Bleikt, púffermar, rómantík. Þetta er allt í loftinu í þessum heillandi og flæðandi kjól frá Philosophy í Mílanó. Fréttablaðið/Getty.