Þjóð­leik­húsið aug­lýsir eftir nýjum leik­verkum til þróunar innan leik­hússins, full­búnum verkum sem og vel út­færðum hug­myndum. Í til­kynningu kemur fram að Þjóð­leik­húsið vilji „efla leik­ritun á Ís­landi og segja sögur sem eiga brýnt erindi við okkur“. Í þetta sinn er sér­stak­lega leitað að verkum sem endur­spegla fjöl­breyti­leika ís­lensks sam­fé­lags í um­fjöllunar­efni, vinnslu verkanna og meðal höfunda. Þó er tekið fram að það úti­loki ekki á neinn hátt önnur verk eða hug­myndir.

„Þjóð­leik­húsið stendur fyrir öflugu höfunda­starfi með það að mark­miði að efla leik­ritun á Ís­landi og finna verðug verk­efni sem eiga erindi við ís­lenska á­horf­endur. Við tökum til skoðunar hug­myndir og hand­rit á öllum vinnslu­stigum og vinnum mark­visst með leik­skáldum frá fyrstu hug­mynd til full­búinna verka,“ segir í til­kynningu.

Þjóð­leik­húsið hefur áður aug­lýst eftir nýjum verkum, fyrst barna­leik­ritum, þá leik­ritum fyrir Há­degis­leik­hús Þjóð­leik­hússins og loks verkum þar sem á­herslan var á frum­samin leik­verk eftir konur og verk sem fjölluðu að ein­hverju leyti um fjöl­breyti­leika og fjöl­menningu. Að sögn Leik­hússins hafa við­brögðin verið afar sterk og þegar hafa nokkur leik­rit sem bárust verið sett upp, auk þess sem fleiri eru í þróun innan leik­hússins.

Óskað er eftir hand­ritum í fullri lengd eða vel út­færðum hug­myndum með sýnis­horni af leik­texta. Stutt lýsing á verkinu skal fylgja, þar sem kemur fram fjöldi per­sóna, at­burða­rás verks og ætlunar­verk höfundar. Einnig skal fylgja stutt feril­skrá höfundar og eru höfundar af öllum kynjum og ó­líkum upp­runa hvattir til að senda inn verk. Nánari upp­lýsingar má finna á vef Þjóð­leik­hússins.