Fegurðarsamkeppnin Miss Universe mun fara fram í fimmta sinn hér á landi í haust. Manuela Ósk Harðardóttir, sem er framkvæmdastjóri og eigandi keppninnar hér á landi, segir keppnina álíka stóra og Eurovison í viðtali við Helgarútgáfuna á K100.

Búið er að opna fyrir skráningar í Miss Universe Iceland keppnina í ár og er opið fyrir þátttöku út mars. Aldurstakmarkið í keppnina er 18-28 ára og allir áhugasamir umsækjendur geta sent póst á missuniverseiceland@gmail.com eða leitað upplýsinga á vefslóð keppninnar.
Hópurinn sem tekur þátt í Miss Universe Iceland 2021 verður valinn eftir páska og byrjar æfingaferlið í sumar.
Manúela segir í samtali við K100 að búið sé að staðfesta að Miss Universe fari fram í Bandaríkjunum þann 16. maí næstkomandi en það er Elísabet Hulda Snorradóttir, sem tekur þátt fyrir Íslands hönd. Manúela segist ekki vita með hvaða móti keppnin verði haldin í ár vegna takmarkana sem eru í gildi vegna COVID-19.